Þorleifur kimbi mælti þá er hann sá að Steinþór brá sverðinu: "Hvítum ræður þú enn hjöltunum Steinþór," sagði hann, "en eigi veit eg hvort þú ræður enn deigum brandinum sem á hausti í Álftafirði."
Steinþór svarar: "Það vildi eg að þú reyndir áður við skildum hvort eg hefði deigan brandinn eða eigi."
Sóttist þeim seint skerið. Og er þeir höfðu langa hríð við ást gerði Þórður blígur skeið að skerinu og vildi leggja spjóti til Þorleifs kimba því að hann var jafnan fremstur sinna manna. Lagið kom í skjöld Þorleifs. En með því að hann varði sér mjög til spruttu honum fætur á jakanum þeim hinum halla og féll hann á bak aftur og renndi öfugur ofan af skerinu. Þorleifur kimbi hljóp eftir honum og vildi drepa hann áður hann kæmist á fætur. Freysteinn bófi hljóp eftir Þorleifi. Hann var á skóbroddum.
Steinþór hljóp til og brá skildi yfir Þórð, er Þorleifur vildi höggva hann, en annarri hendi hjó hann til Þorleifs kimba og undan honum fótinn fyrir neðan kné. En er þetta var tíðinda þá lagði Freysteinn bófi til Steinþórs og stefndi á hann miðjan. En er hann sá það þá hljóp hann í loft upp og kom lagið milli fóta honum. Og þessa þrjá hluti lék hann senn sem nú voru taldir.
Eftir þetta hjó hann til Freysteins með sverðinu og kom á hálsinn og brast við hátt.
Steinþór mælti: "Ball þér nú Bófi?" sagði hann.
"Ball víst," sagði Freysteinn, "og ball hvergi meir en þú hugðir því að eg er eigi sár."
Hann hafði verið í flókahettu og saumað í horn um hálsinn og kom þar í höggið. Síðan snerist Freysteinn aftur upp í skerið. Steinþór bað hann eigi renna ef hann væri eigi sár. Snerist Freysteinn þá við í skerinu og sóttust þá allfast og varð Steinþóri fallhætt, er jakarnir voru bæði hálir og hallir, en Freysteinn stóð fast á skóbroddunum og hjó bæði hart og tíðum.