86. kafli - Af Bolla

 

Bolli og hans förunautar komu á Möðruvöllu til Guðmundar hins ríka. Hann gengur í móti þeim með allri blíðu og var hinn glaðasti. Þar sátu þeir hálfan mánuð í góðum fagnaði.

 

Þá mælti Guðmundur til Bolla: "Hvað er til haft um það, hefir sundurþykki orðið með yður Þorsteini?"

 

Bolli kvað lítið til haft um það og tók annað mál.

 

Guðmundur mælti: "Hverja leið ætlar þú aftur að ríða?"

 

"Hina sömu," svarar Bolli.

 

Guðmundur mælti: "Letja vil eg yður þess því að mér er svo sagt að þið Þorsteinn hafið skilið fálega. Ver heldur hér með mér og ríð suður í vor og látum þá þessi mál ganga til vegar."

 

Bolli lést eigi mundu bregða ferðinni fyrir hót þeirra "en það hugði eg þá er Helgi fólið lét sem heimsklegast og mælti hvert óorðan að öðru við oss og vildi hafa spjótið konungsnaut úr hendi mér fyrir einn heyvöndul að eg skyldi freista að hann fengi ömbun orða sinna. Hefi eg og annað ætlað fyrir spjótinu að eg mundi heldur gefa þér og þar með gullhringinn þann er stólkonungurinn gaf mér. Hygg eg nú að gripirnir séu betur niður komnir en þá að Helgi hefði þá."

 

Guðmundur þakkaði honum gjafir þessar og mælti: "Hér munu smærri gjafir í móti koma en verðugt er."

 

Guðmundur gaf Bolla skjöld gulllagðan og gullhring og skikkju. Var í henni hið dýrsta klæði og búin öll þar er bæta þótti. Allir voru gripirnir mjög ágætir.

 

Þá mælti Guðmundur: "Illa þykir mér þú gera Bolli er þú vilt ríða um Svarfaðardal."

 

Bolli segir það ekki skaða munu. Riðu þeir í brott og skilja þeir Guðmundur við hinum mestum kærleikum. Þeir Bolli ríða nú veg sinn út um Galmarströnd.

 

Um kveldið komu þeir á þann bæ er að Krossum heitir. Þar bjó sá maður er Óttar hét. Hann stóð úti. Hann var sköllóttur og í skinnstakki. Óttar kvaddi þá vel og bauð þeim þar að vera. Það þiggja þeir. Var þar góður beini og bóndi hinn kátasti. Voru þeir þar um nóttina.