Þeir Steinþór gengu inn í Þingskálanes og drógu skipið úr naustinu. Þeir tóku bæði árar og þiljur úr skipinu og lögðu þar eftir á ísnum og svo klæði sín og vopn þau er þyngst voru. Síðan drógu þeir skipið inn eftir firðinum og svo út yfir eiðið til Hofstaðavogs og allt út að skörinni. Síðan gengu þeir inn eftir klæðum sínum og öðrum föngum. Og er þeir gengu inn aftur á Vigrafjörð sáu þeir að sex menn gengu innan úr Þingskálanesi og fóru mikinn út eftir ísnum og stefndu til Helgafells.
Þeir Steinþór höfðu grun af að þar mundu fara Þorbrandssynir og mundu ætla til jólavistar til Helgafells. Tóku þeir Steinþór þá ferð mikla út eftir firðinum til klæða sinn og vopna þeirra sem þar voru. En þetta var, sem Steinþór gat, að þar voru Þorbrandssynir. Og er þeir sáu að menn hljópu innan eftir firðinum þóttust þeir vita hverjir þar mundu vera og hugðu að Eyrbyggjar mundu vilja sækja fund þeirra. Tóku þeir þá og ferð mikla og stefndu til skersins og hugðu sér þar til viðurtöku og fórust þeir þá mjög svo í móti og komust þeir Þorbrandssynir í skerið.
En er þeir Steinþór hljópu fram um skerið þá skaut Þorleifur kimbi spjóti í flokk þeirra og kom það á Bergþór Þorláksson miðjan og varð hann þegar óvígur. Gekk hann inn á ísinn og lagðist þar niður en þeir Steinþór sóttu þá að skerinu en sumir fóru eftir vopnum þeirra.
Þorbrandssynir vörðust vel og drengilega. Höfðu þeir og vígi gott því að jakarnir voru hallir út af skerinu og voru ákaflega hálir. Tókust því seint áverkar með mönnum áður þeir komu aftur er vopnin sóttu.
Þeir Steinþór sóttu sex að skerinu en Austmenn gengu í skotmál á ísinn frá skerinu. Þeir höfðu boga og skutu á þá í skerið og varð þeim það skeinusamt.