"Þó hefir slíkt illa til tekist," svarar Þorsteinn.
Hún sagði og hversu vel Bolli hafði boðið eða hversu heimsklega Helga fór.
Bað hún Þorstein eiga í allan hlut að þetta mál greiddist. Eftir það fór hún heim en Þorsteinn kom að máli við Bolla.
"Hvað er um vinur," segir hann, "hvort hefir Helgi af Skeiði sýnt fólsku mikla við þig? Vil eg biðja að þér leggið niður fyrir mín orð og virðið það engis því að ómæt eru þar afglapa orð."
Bolli svarar: "Það er víst að þetta er engis vert. Mun eg mér og ekki um þetta gefa."
"Þá vil eg," sagði Þorsteinn, "að þér gefið honum upp þetta fyrir mína skyld og hafið þar fyrir mína vináttu."
"Ekki mun þetta til neins voða horfa," sagði Bolli. "Lét eg mér fátt um finnast og bíður það vordaga."
Þorsteinn mælti: "Það mun eg sýna að mér þykir máli skipta að þetta gangi eftir mínum vilja. Eg vil gefa þér hest þann er bestur er hér í sveitum og eru tólf saman hrossin."
Bolli svarar: "Slíkt er allvel boðið en eigi þarftu að leggja hér svo mikla stund á. Eg gaf mér lítið um slíkt. Mun og lítið af verða þá er í dóm kemur."
"Það er sannast," sagði Þorsteinn, "að eg vil selja þér sjálfdæmi fyrir málið."
Bolli svarar: "Það ætla eg sannast að ekki þurfi um að leitast því að eg vil ekki sættast á þetta mál."
"Þá kýstu það er öllum oss gegnir verst," sagði Þorsteinn, "þótt Helgi sé lítils verður þá er hann þó í venslum bundinn við oss. Þá munum vér hann eigi upp gefa undir vopn yður síðan þú vilt engis mín orð virða. En að þeim atkvæðum að Helgi hafði í stefnu við þig líst mér það engi sæmdarauki þó að það sé á þing borið."
Skildu þeir Þorsteinn og Bolli heldur fálega. Ríður hann í brott og hans félagar og er ekki getið að hann sé með gjöfum í brott leystur.