Þorbrandur hafði verið í bardaganum í meðalgöngu með þeim Ásláki og Illuga og hann hafði þá beðið að leita um sætti. Þakkar hann þeim vel sína liðveislu og svo Snorra goða fyrir sinn styrk. Fór Snorri goði þá heim til Helgafells eftir bardagann.
Var þá svo ætlað að Þorbrandssynir skyldu vera ýmist að Helgafelli eða heima í Álftafirði þar til að lyki málum þessum því að þá voru hinar mestu dylgjur sem von var er allt var griðalaust með mönnum þegar er menn voru heim komnir frá fundinum.
Það sumar, áður bardaginn var í Álftafirði, hafði skip komið í Dögurðarnes sem fyrr var sagt. Þar hafði Steinþór af Eyri keypt teinæring góðan við skipið. Og er hann skyldi heim færa skipið tók hann vestanveður mikið og sveif þeim inn um Þórsnes og lentu í Þingskálanesi og settu þar upp skipið í Gruflunaust og gengu þaðan út yfir ásana til Bakka og fóru þaðan á skipi heim. En teinæringurinn hafði ekki sóttur orðið um haustið og stóð hann þar í Gruflunausti.
Það var einn morgun litlu fyrir jól að Steinþór stóð upp snemma og segir að hann vill sækja skip sitt inn í Þingskálanes. Þá réðust til ferðar með honum bræður hans, Bergþór og Þórður blígur. Þá voru sár hans mjög gróin svo að hann var vel vopnfær. Þar voru og í ferð Austmenn Steinþórs tveir. Alls voru þeir átta saman og voru fluttir inn yfir fjörð til Seljahöfða og gengu síðan inn á Bakka og fór þaðan Þormóður bróðir þeirra. Hann var hinn níundi.
Ís var lagður á Hofstaðavog mjög svo að bakka hinum meira og gengu þeir inn eftir ísum og svo inn yfir eið til Vigrafjarðar og lá hann allur. Honum er svo háttað að hann fjarar allan að þurru og leggst ísinn á leirana er fjaran er en sker þau er eru á firðinum stóðu upp úr ísnum og var þar brotinn mjög ísinn um skerið og voru jakarnir hallir mjög út af skerinu. Lausasnjór var fallinn á ísinn og var hált mjög á ísnum.