Þá mælti bóndi: "Þá tel eg þig hafa á öðrum alist meir en hálfan mánuð."
Helgi hefur þá upp aðra stefnu og stefnir Bolla um verðgang.
Og er því var lokið þá mælti Bolli: "Þú hefir mikið við Helgi og mun betur fallið að leika nokkuð í móti við þig."
Þá hefur Bolli upp stefnu og stefndi Helga um illmæli við sig og annarri stefnu um brekráð til fjár síns. Þeir mæltu förunautar hans að drepa skyldi skelmi þann. Bolli kvað það eigi skyldu. Bolli lét varða skóggang.
Hann mælti eftir stefnuna: "Þér skuluð færa heim húsfreyju Helga hníf og belti er eg sendi henni því að mér er sagt að hún hafi gott eina lagt til vorra haga."
Bolli ríður nú í brott en Helgi er þar eftir. Þeir Bolli koma til Þorsteins á Háls og fá þar góðar viðtökur. Er þar búin veisla fríð.
Nú er að segja frá Helga að hann kemur heim á Skeið og segir húsfreyju sinni hvað þeir Bolli höfðu við ást.
"Þykist eg eigi vita," segir hann, "hvað mér verður til ráðs að eiga við slíkan mann sem Bolli er en eg er málamaður engi. Á eg og ekki marga þá er mér muni að málum veita."
Sigríður húsfreyja svarar: "Þú ert orðinn mannfóli mikill, hefir átt við hina göfgustu menn og gert þig að undri. Mun þér og fara sem maklegt er að þú munt hér fyrir upp gefa allt fé þitt og sjálfan þig."
Helgi heyrði á orð hennar og þóttu ill vera en grunaði þó að satt mundi vera því að honum var svo farið að hann var vesalmenni og þó skapillur og heimskur. Sá hann sig engi færi hafa til leiðréttu en mælt sig í ófæru. Barst hann heldur illa af fyrir þetta allt jafnsaman.
Sigríður lét taka sér hest og reið að finna Þorstein frænda sinn Narfason og voru þeir Bolli þá komnir. Hún heimti Þorstein á mál og sagði honum í hvert efni komið var.