Þá kallar Þóroddur Þorbrandsson: "Engi grið vilja þeir halda og léttum nú eigi fyrr en drepnir eru allir Þorlákssynir."
Þá svarar Snorri goði: "Agasamt mun þá verða í héraðinu ef allir Þorlákssynir eru drepnir og skulu haldast grið ef Steinþór vill eftir því sem áður var mælt."
Þá báðu allir Steinþór taka griðin. Fór þetta þá fram að grið voru sett með mönnum þar til að hver kæmi til síns heima.
Það er að segja frá Breiðvíkingum að þeir spurðu að Snorri goði hafði farið með fjölmenni til Álftafjarðar. Tóku þeir þá hesta sína og riðu eftir Steinþóri sem ákafast og voru þeir á Úlfarsfellshálsi þá er bardaginn var á skriðunni. Og er það sumra manna sögn að Snorri goði sæi þá Björn er þeir voru uppi í hálsbrúninni, er hann horfði í gegn þeim, og væri því svo auðveldur í griðasölunni við þá Steinþór.
Þeir Steinþór og Björn fundust á Örlygsstöðum. Sagði Björn þá að þetta hefði farið eftir getu hans. "Er það mitt ráð," sagði hann, "að þér snúið aftur og herðum nú að þeim."
Steinþór svarar: "Halda vil eg grið mín við Snorra goða hversu sem mál vor Snorra skipast síðan."
Eftir það riðu þeir allir hver til sinna heimkynna en Þórður blígur lá í sárum á Eyri.
Í bardaganum í Álftafirði féllu fimm menn af Steinþóri en tveir af Snorra goða en margir urðu sárir af hvorumtveggjum því að fundurinn var hinn harðasti.
Svo segir Þormóður Trefilsson í Hrafnsmálum:
Saddi svangreddir
sára dynbáru
örn á úlfs virði
í Álftafirði.
Þar lét þá Snorri
þegna að hjörregni
fjörvi fimm numna,
svo skal fjandr hegna.