Sigríður húsfreyja svarar: "Þeir einir munu þar menn vera að það mun ráð að spara eigi hey við."
Helgi hljóp upp í óðafári og kvað aldrei hana skyldu þessu ráða að hann léti stela heyjum sínum. Hann hleypur þegar sem hann sé vitlaus og kemur þar að sem þeir áðu. Bolli stóð upp er hann leit ferðina mannsins og studdist við spjótið konungsnaut.
Og þegar Helgi kom að honum mælti hann: "Hverjir eru þessir þjófarnir er mér bjóða ofríki og stela mig eign minni og rífa í sundur hey mitt fyrir faraskjóta sína?"
Bolli segir nafn sitt.
Helgi svarar: "Það er óliðlegt nafn og muntu vera óréttvís."
"Vera má að svo sé," segir Bolli, "en hinu skaltu mæta er réttvísi er í."
Bolli keyrði þá hestana frá heyinu og bað þá eigi æja lengur.
Helgi mælti: "Eg kalla yður hafa stolið mig þessu sem þér hafið haft og gert á hendur yður skóggangssök."
"Þú munt vilja bóndi," sagði Bolli, "að vér komum fyrir oss fébótum við þig og hafir þú eigi sakir á oss. Mun eg gjalda tvenn verð fyrir hey þitt."
"Það fer heldur fjarri," svarar hann, "mun eg framar á hyggja um það er vér skiljum."
Bolli mælti: "Eru nokkurir hlutir þeir bóndi er þú viljir hafa í sætt af oss?"
"Það þykir mér vera mega," svarar Helgi, "að eg vilji spjót það hið gullrekna er þú hefir í hendi."
"Eigi veit eg," sagði Bolli, "hvort eg nenni það til að láta. Hefi eg annað nokkuð heldur fyrir því ætlað. Máttu það og varla tala að beiðast vopns úr hendi mér. Tak heldur annað fé svo mikið að þú þykist vel haldinn af."
"Fjarri fer það," svarar Helgi, "er það og best að þér svarið slíku fyrir sem þér hafið til gert."
Síðan hóf Helgi upp stefnu og stefndi Bolla um þjófnað og lét varða skóggang. Bolli stóð og heyrði til og brosti við lítinn þann.
En er Helgi hafði lokið stefnunni mælti hann: "Nær fórstu heiman?"