"Svo skal og nú vera," segir Snorri goði, "að vér skulum við eigast fleira." Bað hann Þorleif nú segja mönnum að eftir þeim skyldi fara.

Þeir Steinþór voru komnir ofan af vellinum er þeir sáu eftirreiðina. Fóru þeir þá yfir ána og sneru síðan upp í skriðuna Geirvör og bjuggust þar fyrir, því að þar var vígi gott fyrir grjóts sakir.

En er flokkurinn Snorra gekk neðan skriðuna þá skaut Steinþór spjóti að fornum sið til heilla sér yfir flokk Snorra en spjótið leitaði sér staðar og varð fyrir Már Hallvarðsson frændi Snorra og varð hann þegar óvígur.

Og er þetta var sagt Snorra goða þá svarar hann: "Gott er að það sannist að það er eigi jafnan best að ganga síðast."

Eftir þetta tókst þar bardagi mikill. Var Steinþór í öndverðum flokki sínum og hjó á tvær hendur en sverðið það hið búna dugði eigi er það kom í hlífarnar og brá hann því oft undir fót sér. Hann sótti þar mest að sem fyrir var Snorri goði. Styr Þorgrímsson sótti hart fram með Steinþóri frænda sínum. Varð það fyrst að hann drap mann úr flokki Snorra mágs síns.

Og er Snorri goði sá það mælti hann til Styrs: "Svo hefnir þú Þórodds, dóttursonar þíns, er Steinþór hefir særðan til ólífis og ertu eigi meðalníðingur."

Styr svarar: "Þetta fæ eg skjótt bætt þér."

Skipti hann þá um sínum skildi og gekk í lið með Snorra goða og drap annan mann úr liði Steinþórs.

Í þenna tíma komu þeir að feðgar úr Langadal, Áslákur og Illugi hinn rammi sonur hans, og leituðu meðalgöngu. Þeir höfðu þrjá tigu manna. Gekk þá Vermundur hinn mjóvi í lið með þeim. Beiddu þeir þá Snorra goða að hann léti stöðvast manndrápin.

Snorri bað Eyrbyggja þá ganga til griða. Þá báðu þeir Steinþór taka grið handa sínum mönnum. Steinþór bað Snorra þá rétta fram höndina og svo gerði hann. Þá reiddi Steinþór upp sverðið og hjó á hönd Snorra goða og varð þar við brestur mikill. Kom höggið í stallahringinn og tók hann mjög svo í sundur en Snorri varð eigi sár.