Þeir Arnór og Bolli ríða nú með sína menn og er skammt var í milli þeirra og Hjaltasona þá mælti Bolli til Arnórs: "Mun eigi það nú ráð að þér hverfið aftur? Hafið þér þó fylgt oss hið drengilegsta. Munu þeir Hjaltasynir ekki sæta fláráðum við mig."
Arnór mælti: "Eigi mun eg enn aftur hverfa því að svo er sem annar segi mér að Þorvaldur muni til þess ætla að hafa fund þinn. Eða hvað sé eg þar upp koma, blika þar eigi skildir við? Og munu þar vera Hjaltasynir. En þó mætti nú svo um búast að þessi þeirra ferð yrði þeim til engrar virðingar en megi metast fjörráð við þig."
Nú sjá þeir Þorvaldur bræður að þeir Bolli eru hvergi liðfærri en þeir og þykjast sjá ef þeir sýna nokkura óhæfu af sér að þeirra kostur mundi mikið versna. Sýnist þeim það ráðlegast að snúa aftur alls þeir máttu ekki sínum vilja fram koma.
Þá mælti Þórður: "Nú fór sem mig varði að þessi ferð mundi verða hæðileg og þætti mér enn betra heima setið. Höfum sýnt oss í fjandskap við menn en komið engu á leið."
Þeir Bolli ríða leið sína. Fylgir Arnór þeim upp á heiðina og skildi hann eigi fyrr við þá en hallaði af norður. Þá hvarf hann aftur en þeir riðu ofan eftir Svarfaðardal og komu á bæ þann er á Skeiði heitir. Þar bjó sá maður er Helgi hét. Hann var ættsmár og illa í skapi, auðigur að fé. Hann átti þá konu er Sigríður hét. Hún var frændkona Þorsteins Hellu-Narfasonar. Hún var þeirra skörungur meiri.
Þeir Bolli litu heygarð hjá sér. Stigu þeir þar af baki og kasta þeir fyrir hesta sína og verja til heldur litlu en þó hélt Bolli þeim aftur að heygjöfinni. "Veit eg eigi," segir hann, "hvert skaplyndi bóndi hefir."
Þeir gáfu heyvöndul og létu hestana grípa í.
Á bænum heima gekk út maður og þegar inn aftur og mælti: "Menn eru við heygarð þinn bóndi og reyna desjarnar."