Þeir Steinþór riðu að dyrum og er svo frá sagt að hann væri í rauðum kyrtli og hafði drepið upp fyrirblöðunum undir belti. Hann hafði fagran skjöld og hjálm og gyrður sverði. Það var forkunnlega búið. Hjöltin voru hvít fyrir silfri og vafður silfri meðalkaflinn og gylltar listur á.
Þeir Steinþór stigu af hestum sínum og gekk hann upp að dyrum og festi á hurðarklofann sjóð þann er í voru tólf aurar silfurs. Hann nefndi þá votta að þrælsgjöld voru þá að lögum færð.
Hurðin var opin en heimakona ein var í dyrunum og heyrði vottnefnuna. Gekk hún þá í stofu og mælti: "Það er bæði," sagði hún, "að hann Steinþór af Eyri er drengilegur enda mæltist honum vel er hann færði þrælsgjöldin."
Og er Þorleifur kimbi heyrði þetta þá hljóp hann fram og aðrir Þorbrandssynir og síðan gengu fram allir þeir er í stofunni voru. Þorleifur kom fyrstur í dyrnar og sá að Þórður blígur stóð fyrir dyrum og hafði skjöld sinn en Steinþór gekk þá fram í túnið. Þorleifur tók spjót er stóð í dyrunum og lagði til Þórðar blígs og kom lagið í skjöldinn og renndi af skildinum í öxlina og var það mikið sár. Eftir það hljópu menn út. Varð þar bardagi í túninu. Steinþór var hinn ákafasti og hjó til beggja handa. Og er Snorri goði kom út bað hann menn stöðva vandræðin og bað þá Steinþór ríða brott af túninu en hann kvaðst eigi mundu láta eftir fara. Þeir Steinþór fóru ofan eftir vellinum og skildi þá fundinn.
En er Snorri goði gekk heim að dyrum stóð þar fyrir honum Þóroddur sonur hans og hafði mikið sár á öxlinni. Hann var þá tólf vetra. Snorri spurði hver hann hefði særðan.
"Steinþór af Eyri," sagði hann.
Þorleifur kimbi svarar: "Nú launaði hann þér maklega er þú vildir eigi láta eftir honum fara. Er það nú mitt ráð að vér skiljum eigi við þetta."