Þá mælti Arnór: "Vel hefir þú gert Bolli er þú hefir mig heimsótt. Þykir mér þú hafa lýst í því við mig mikinn félagsskap. Skulu eigi eftir betri gjafir með mér en þú skalt þiggja mega. Mín vinátta skal þér og heimul vera. En nokkur grunur er mér á að þér séu eigi allir menn vinhollir í þessu héraði, þykjast sviptir vera sæmdum. Kemur það mest til þeirra Hjaltasona. Mun eg nú ráðast til ferðar með þér norður á Heljardalsheiði þá er þér farið héðan."
Bolli svarar: "Þakka vil eg yður Arnór bóndi alla sæmd er þér gerið til mín nú og fyrrum. Þykir mér og það bæta vorn flokk að þér ríðið með oss. En allt hugðum vér að fara með spekt um þessi héruð. En ef aðrir leita á oss þá má vera að vér leikum þá enn nokkuð í mót."
Síðan ræðst Arnór til ferðar með þeim og ríða nú veg sinn.
84. kafli
Nú er að segja frá Þorvaldi að hann tekur til orða við Þórð bróður sinn: "Vita muntu að Bolli fer héðra að heimboðum. Eru þeir nú að Arnórs átján saman og ætla norður Heljardalsheiði."
"Veit eg það," svarar Þórður.
Þorvaldur mælti: "Ekki er mér þó um það að Bolli hlaupi hér svo um horn oss að vér finnum hann eigi því að eg veit eigi hver minni sæmd hefir meir niður drepið en hann."
Þórður mælti: "Mjög ertu íhlutunarsamur og meir en eg vildi og ófarin mundi þessi ef eg réði. Þykir mér óvíst að Bolli sé ráðlaus fyrir þér."
"Eigi mun eg letjast láta," svarar Þorvaldur, "en þú munt ráða ferð þinni."
Þórður mælti: "Eigi mun eg eftir sitja ef þú ferð bróðir en þér munum vér eigna alla virðing þá er vér hljótum í þessi ferð, og svo ef öðruvís ber til."
Þorvaldur safnar að sér mönnum og verða þeir átján saman og ríða á leið fyrir þá Bolla og ætla að sitja fyrir þeim.