Og er Þorvaldur kom til þingsins hittust þeir Starri og tóku tal saman.
Þorvaldur mælti: "Svo er mál með vexti að eg vil þess beiða að þú takir við Þórólfi stærimanni til varðveislu og trausts. Mun eg fá þér þrjár merkur silfurs og vináttu mína."
"Þar er sá maður," svarar Starri, "er mér þykir ekki vinsæll og óvíst að honum fylgi hamingja. En sakir okkars vinskapar þá vil eg við honum taka."
"Þá gerir þú vel," segir Þorvaldur.
Sneri hann þá skildinum og frá sér hvolfinu og er Þórólfur sér það gengur hann fram og tók Starri við honum. Starri átti jarðhús í Guðdölum því að jafnan voru með honum skógarmenn. Átti hann og nokkuð sökótt.
Bolli Bollason býr til vígsmálið Ólafs. Hann býst heiman og fer norður til Skagafjarðar við þrjá tigi manna. Hann kemur á Miklabæ og er honum þar vel fagnað.
Segir hann hversu af stóð um ferðir hans: "Ætla eg að hafa fram vígsmálið nú á Hegranessþingi á hendur Þórólfi stærimanni. Vildi eg að þú værir mér um þetta mál liðsinnaður."
Arnór svarar: "Ekki þykir mér þú Bolli vænt stefna út er þú sækir norður hingað, við slíka ójafnaðarmenn sem hér er að eiga. Munu þeir þetta mál meir verja með kappi en réttindum. En ærin nauðsyn þykir mér þér á vera. Munum vér og freista að þetta mál gangi fram."
Arnór dregur að sér fjölmenni mikið. Ríða þeir Bolli til þingsins. Þeir bræður fjölmenna mjög til Hegranessþings. Þeir hafa frétt um ferðir Bolla. Ætla þeir að verja málið. Og er menn koma til þingsins hefir Bolli fram sakir á hendur Þórólfi. Og er til varna var boðið gengu þeir til Þorvaldur og Starri við sveit sína og hugðu að eyða málinu fyrir Bolla með styrk og ofríki.
En er þetta sér Arnór gengur hann í milli með sína sveit og mælti: "Það er mönnum einsætt að færa hér eigi svo marga góða menn í vandræði sem á horfist að menn skuli eigi ná lögum um mál sín. Er og ófallið að fylgja Þórólfi um þetta mál. Muntu Þorvaldur og óliðdrjúgur verða ef reyna skal."