Þetta sama haust ræddu Þorbrandssynir við Egil, þræl sinn, að hann skal fara út til knattleikanna og drepa nokkurn af Breiðvíkingum, Björn eða Þórð eða Arnbjörn, með nokkuru móti en síðan skal hann hafa frelsi.
Það er sumra manna sögn að það væri gert með ráði Snorra goða og hafi hann svo fyrir sagt að hann skyldi vita ef hann mætti leynast inn í skálann og leita þaðan til áverka við menn og bað hann ganga ofan skarð það er upp er frá Leikskálum og ganga þá ofan er máleldar væru gervir því að hann sagði það mjög far veðranna að vindar lögðust af hafi um kveldum og hélt þá reykinum upp í skarðið og bað hann þess bíða um ofangönguna er skarðið fyllti af reyk.
Egill réðst til ferðar þessarar og fór fyrst út um fjörðu og spyr að sauðum Álftfirðinga og lét sem hann færi í eftirleit. En á meðan hann var í þessi ferð skyldi Freysteinn bófi gæta sauða í Álftafirði.
Um kveldið er Egill var heiman farinn gekk Freysteinn að sauðum vestur yfir ána og er hann kom á skriðu þá er Geirvör heitir er gengur ofan fyrir vestan ána þá sá hann mannshöfuð laust óhulið. Höfuðið kvað stöku þessa:
Roðin er Geirvör
gumna blóði,
hún mun hylja
hausa manna.Hann sagði Þorbrandi fyrirburðinn og þótti honum vera tíðindavænlegt.
En það er að segja af ferð Egils að hann fór út um fjörðu og upp á fjall fyrir innan Búlandshöfða og svo suður yfir fjallið og stefndi svo að hann gekk ofan í skarðið að Leikskálum. Leyndist hann þar um daginn og sá til leiksins.
Þórður blígur sat hjá leikinum. Hann mælti: "Það veit eg eigi hvað eg sé upp í skarðið, hvort þar er fugl eða leynist þar maður og kemur upp stundum. Kvikt er það," segir hann. "Þykir mér ráð að um sé forvitnast," en það varð eigi.