Breiðvíkingar komu til skips um daginn og gengu hvorir með sínum flokki. Voru þá miklar dylgjur og viðsjár með þeim en hvorigir leituðu á aðra. Voru Breiðvíkingar fjölmennari í kaupstefnunni.
Snorri goði reið um kveldið suður í Hofgarða. Þar bjó þá Björn og Gestur sonur hans, faðir Hofgarða-Refs. Þeir Björn Breiðvíkingakappi buðu Arnbirni að ríða eftir þeim Snorra en Arnbjörn vildi það eigi og kvað nú hafa skyldu hvorir það er fengið höfðu.
Þeir Snorri riðu heim um daginn eftir og undu Þorbrandssynir nú sínum hlut verr en áður. Tók nú að líða á haustið.
Þorbrandur bóndi í Álftafirði átti þræl þann er Egill sterki hét. Hann var manna mestur og sterkastur og þótti honum ill ævi sín er hann var ánauðgaður og bað oft Þorbrand og sonu hans að þeir gæfu honum frelsi og bauð þar til að vinna slíkt er hann mætti.
Það var eitt kveld að Egill gekk að sauðum í Álftafirði út til Borgardals. Og er á leið kveldið sá hann að örn fló vestan yfir fjörðinn. Dýrhundur mikill fór með Agli. Örninn lagðist að hundinum og tók hann í klær sér og fló vestur aftur yfir fjörðinn á dys Þórólfs bægifóts og hvarf þar undir fjallið. Þenna fyrirburð kvað Þorbrandur vera mundu fyrir tíðindum.
Það var siður Breiðvíkinga um haustum að þeir höfðu knattleika um veturnáttaskeið undir Öxlinni suður frá Knerri. Þar heita síðan Leikskálavellir, og sóttu menn þangað um alla sveitina. Voru þar gervir leikskálar miklir. Vistuðust menn þangað og sátu þar hálfan mánuð eða lengur. Var þar þá gott mannval um sveitina og byggð mikil og flestir hinir yngri menn að leikum nema Þórður blígur. Hann mátti eigi að vera fyrir kapps sakir en eigi var hann svo sterkur að hann mætti eigi fyrir þá sök að vera. Sat hann á stóli og sá á leikinn. Þeir bræður, Björn og Arnbjörn, þóttu eigi að leikum hæfir fyrir afls sakir nema þeir lékjust við sjálfir.