42. kafli
Þetta sumar kom skip í Hraunhafnarós en annað í Dögurðarnes. Snorri goði
átti erindi til skips í Hraunhöfn og reið hann heiman við fimmtánda mann.
En er þeir koma suður yfir heiðina í Dufgusdal hleyptu þar eftir þeim sex
menn alvopnaðir. Voru þar Þorbrandssynir. Snorri spyr hvert þeir ætli að
fara. Þeir kváðust fara skyldu til skips í Hraunhafnarós.
Snorri kvaðst mundu lúka erindum þeirra en bað þá fara heim og glettast eigi
við menn, kallar oft lítið þurfa til með þeim mönnum er áður var fátt í
meðal ef fundi bæri saman.
Þorleifur kimbi svarar: "Eigi skal það spyrjast að vér þorum eigi að ríða um
sveitir fyrir þeim Breiðvíkingum en vel máttu heim ríða ef þú þorir eigi að
ríða leið þína þó að þú eigir erindi."
Snorri svarar engu. Riðu þeir síðan út yfir hálsana og svo út til Hofgarða
og þaðan út um sanda með sæ. Og er þeir komu mjög út að ósinum riðu
Þorbrandssynir frá þeim og upp að Bakka. Og er þeir komu að bænum hljópu
þeir af baki og ætluðu inn að ganga og fengu eigi upp brotið hurðina. Hljópu
þeir þá upp á húsin og tóku að rjúfa. Arnbjörn tók vopn sín og varðist innan
úr húsunum. Lagði hann út í gegnum þekjuna og varð þeim það skeinisamt.
Þetta var snemma um morguninn og var veður bjart.
Þenna morgun höfðu Breiðvíkingar staðið upp snemma og ætluðu að ríða til
skips. En er þeir komu inn fyrir Öxlina sáu þeir að maður var í skrúðklæðum
á húsum uppi á Bakka. En þeir vissu að það var eigi búnaður Arnbjarnar.
Sneru þeir Björn þá þangað ferð sinni.
En er Snorri goði vissi að Þorbrandssynir höfðu frá riðið föruneyti hans
reið hann eftir þeim. Og er þeir komu á Bakka voru þeir sem óðastir að rjúfa
húsin og þá bað Snorri þá frá hverfa og gera engan ófrið í sínu föruneyti.
Og með því að þeim hafði eigi tekist inngangan þá gáfu þeir upp atsóknina
sem Snorri bað og riðu síðan til skips með Snorra.