"Þetta var lítið frægðarverk," svarar Þórólfur, "en gera mundi eg það vilja
er þér þætti eigi betur."
Þórólfur var málóði og heitaðist í hverju orði.
Þórður átti heimanferð fyrir höndum. Ólafur sonur hans var þá sjö vetra eða
átta. Hann fór af bænum með leik sínum og gerði sér hús sem börnum er títt
en Þórólfur kom þar að honum. Hann lagði sveininn í gegnum með spjóti. Síðan
fór hann heim og sagði konu sinni.
Hún svarar: "Þetta er illt verk og ómannlegt. Mun þér þetta illu reifa."
En er hún tók á honum þungt þá fór hann í brott þaðan og létti eigi fyrr en
hann kom á Miklabæ til Arnórs. Fréttust þeir tíðinda.
Þórólfur segir honum víg Ólafs: "Sé eg þar nú til trausts sem þér eruð sakir
mágsemdar."
"Eigi ferð þú sjáandi eftir um þenna hlut," sagði Arnór, "að eg muni virða
meira mágsemd við þig en virðing mína og sæmd, og ásjá áttu hér engrar von
af mér."
Fór Þórólfur upp eftir Hjaltadal til Hofs og fann þá Hjaltasonu og sagði
þeim hvar komið var hans máli "og sé eg hér nú til ásjá sem þið eruð."
Þórður svarar: "Slíkt eru níðingsverk og mun eg enga ásjá veita þér um þetta
efni."
Þorvaldur varð um fár. Fær Þórólfur ekki af þeim að sinni.
Reið hann í brott og upp eftir Hjaltadal til Reykja, fór þar í laug. En um
kveldið reið hann ofan aftur og undir virkið að Hofi og ræddist við einn
saman svo sem annar maður væri fyrir og kveddi hann og frétti hver þar væri
kominn.
"Eg heiti Þórólfur," kvað hann.
"Hvert varstu farinn eða hvað er þér á höndum?" spyr launmaðurinn.
Þórólfur segir tilfelli þessi öll eftir því sem voru: "Bað eg Hjaltasonu
ásjár," segir hann, "sakir nauðsynja minna."

Grace Hatton
Hawley, PA