79. kafli - Af Bolla Bollasyni
Í þann tíma er Bolli Bollason bjó í Tungu og nú var áður frá sagt þá bjó
norður í Skagafirði á Miklabæ Arnór kerlingarnef son Bjarnar Þórðarsonar frá
Höfða.
Þórður hét maður er bjó á Marbæli. Guðrún hét kona hans. Þau voru vel að sér
og höfðu gnótt fjár. Son þeirra hét Ólafur og var hann ungur að aldri og
allra manna efnilegastur. Guðrún kona Þórðar var náskyld Bolla Bollasyni.
Var hún systrungur hans. Ólafur son þeirra Þórðar var heitinn eftir Ólafi pá
í Hjarðarholti.
Þórður og Þorvaldur Hjaltasynir bjuggu að Hofi í Hjaltadal. Þeir voru
höfðingjar miklir.
Maður hét Þórólfur og var kallaður stertimaður. Hann bjó í Þúfum. Hann var
óvinveittur í skapi og æðimaður mikill. Hann átti griðung grán, ólman.
Þórður af Marbæli var í förum með Arnóri. Þórólfur stærimaður átti frændkonu
Arnórs en hann var þingmaður Hjaltasona. Hann átti illt við búa sína og
lagði það í vanda sinn. Kom það mest til þeirra Marbælinga. Graðungur hans
gerði mönnum margt mein þá er hann kom úr afréttum. Meiddi hann fé manna en
gekk eigi undan grjóti. Hann braut og andvirki og gerði margt illt.
Þórður af Marbæli hitti Þórólf að máli og bað hann varðveita graðung sinn:
"Viljum vér eigi þola honum ofríki."
Þórólfur lést eigi mundu sitja að fé sínu. Fer Þórður heim við svo búið.
Eigi miklu síðar getur Þórður að líta hvar graðungurinn hefir brotið niður
torfstakka hans. Þórður hleypur þá til og hefir spjót í hendi og er boli sér
það veður hann jörð svo að upp tekur um klaufir. Þórður leggur til hans svo
að hann fellur dauður á jörð. Þórður hitti Þórólf og sagði honum að boli var
dauður.

Grace Hatton
Hawley, PA