Það var einn dag að Björn fór til Fróðár. Og um kveldið er hann bjóst heim
að fara var þykkt veður og regn nokkuð og var hann heldur síðbúinn. En er
hann kom upp á heiðina kólnaði veðrið og dreif. Var þá svo myrkt að hann sá
eigi leiðina fyrir sér. Eftir það laust á hríð með svo miklu hreggi að hann
fékk varla stýrt sér. Tók þá að frysta að honum klæðin er hann var áður
alvotur. Fór hann þá og svo villur að hann vissi eigi hvert hann horfði.
Hann hitti um nóttina hellisskúta einn og fór þar inn í og var þar um
nóttina og hafði kalda búð. Þá kvað Björn:
Myndit Hlín of hyggja
hafleygjar vel þeygi,
sú er ber í vá víða
váðir, mínu ráði
ef eld-Njörun öldu
ein vissi mig steina,
hirðiþoll, í helli,
hafviggs, kalinn liggja.
Og enn kvað hann:
Sýlda skar eg svana fold
súðum því að gæibrúðr
ástum leiddi oss fast
austan með hlaðið flaust.
Víða gat eg vosbúð,
víglundr nú um stund
helli byggir hugfullr
hingað fyr konu bing.