Þórður mælti: "Hvað mun Þóroddur nú til segja hvor ykkar eiga mun sveininn?"
Þá kvað Björn vísu:
Þá mun þöll hin mjóva
Þórodds aðalbjóra,
fold unni mér földu
fannhvít, getu sanna,
ef áttgöfug ætti
auðbrík sonu líka,
enn er eg gjarn til Gunnar
gjálfrelda, mér sjálfum.
Þórður mælti: "Það mun þó vera yðart ráð að eigast fátt við og snúa frá hug
sínum þar sem Þuríður er."
"Það mun vera gott ráð," segir Björn, "en firr er það mínu skapi þó að við
nokkurn mannamun sé að eiga þar sem Snorri goði er, bróðir hennar."
"Þú sérð nú ráð fyrir þér," segir Þórður. Og skildi þar talið með þeim.
Björn fór nú heim til Kambs og tók þar bústjórn því að faðir hans var þá
andaður. Hann hóf ferð sína um veturinn yfir heiði norður að hitta Þuríði.
En þó að Þóroddi þætti það illa þá þótti honum sér óhægt vera bætur á að
ráða, taldi það í hug sér hversu hart hann hafði af fengið þá er hann hafði
um vandað hagi þeirra en hann sá að Björn var nú miklu kraftameiri en fyrr.
Þóroddur keypti um veturinn að Þorgrímu galdrakinn að hún skyldi gera
hríðviðri að Birni þá er hann færi um heiðina.