Guðrún svarar: "Fast skorar þú þetta sonur minn," segir Guðrún, "en ef eg
skal það nokkurum segja þá mun eg þig helst velja til þess."
Bolli bað hana svo gera.
Þá mælti Guðrún: "Þeim var eg verst er eg unni mest."
"Það hyggjum vér," svarar Bolli, "að nú sé sagt alleinarðlega" og kvað hana
vel hafa gert er hún sagði þetta er hann forvitnaði.
Guðrún varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði sjónlaus. Guðrún
andaðist að Helgafelli og þar hvílir hún.
Gellir Þorkelsson bjó að Helgafelli til elli og er margt merkilegt frá honum
sagt. Hann kemur og við margar sögur þótt hans sé hér lítt getið. Hann lét
gera kirkju að Helgafelli virðulega mjög, svo sem Arnór jarlaskáld vottar í
erfidrápu þeirri er hann orti um Gelli og kveður þar skýrt á þetta. Og er
Gellir var nokkuð hniginn á hinn efra aldur þá býr hann ferð sína af
Íslandi. Hann kom til Noregs og dvaldist þar eigi lengi, fer þegar af landi
á brott og gengur suður til Róms, sækir heim hinn helga Pétur postula. Hann
dvelst í þeirri ferð mjög lengi, fer síðan sunnan og kemur í Danmörk. Þá
tekur hann sótt og lá mjög lengi og fékk alla þjónustu. Síðan andaðist hann
og hvílir í Hróiskeldu. Gellir hafði haft Sköfnung með sér og náðist hann
ekki síðan. En hann hafði verið tekinn úr haugi Hrólfs kraka. Og er andlát
Gellis spurðist til Íslands þá tók Þorkell son hans við föðurleifð sinni að
Helgafelli en Þorgils, annar son Gellis, drukknaði ungur á Breiðafirði og
allir þeir er á skipi voru með honum. Þorkell Gellisson var hið mesta
nytmenni og var sagður manna fróðastur.