Um sumarið þá er þeir voru nýkomnir út var stefnt fjölmennt mannamót fyrir
norðan heiðina undir Haugabrekkum, inn frá Fróðárósi, og riðu þeir til
kaupmennirnir allir í litklæðum. Og er þeir komu til mannamótsins var þar
mart manna fyrir. Þar var Þuríður húsfreyja frá Fróðá og gekk Björn til tals
við hana og lagði engi maður það til orðs. Þótti mönnum að vonum að þeim
yrði hjaldrjúgt svo langt sem í milli funda hafði verið.
Þar urðu áverkar með mönnum um daginn. Þar var særður til ólífis maður
þeirra norðanmanna og var hann borinn undir hrísrunn einn er stóð á eyrinni
og hljóp blóð mikið úr sárinu og stóð blóðtjörn í runninum.
Þar var sveinninn Kjartan, sonur Þuríðar frá Fróðá. Hann hafði öxi litla í
hendi. Hann hljóp að runninum og laugaði öxina í blóðinu.
En er þeir Heiðsynningar riðu suður af mannamótinu spyr Þórður blígur hversu
á horfist um tal með þeim Þuríði að Fróðá. Björn lét vel yfir.
Þá spurði Þórður hvort hann hefði séð um daginn sveininn Kjartan son þeirra
Þórodds allra saman.
"Sá eg hann," segir Björn.
"Hvern veg leist þér á hann?" sagði Þórður.
Þá kvað Björn vísu þessa:
Sá eg hvar rann í runni
runnr að fenris brunni,
ægilegr í augum,
iðglíki mér, bríkar.
Láta þeygi þrjótar
það barn vita Mörnar,
hesta hleypi rastar
hlunns, sinn föður kunna.