Hann var í pellsklæðum er Garðskonungur hafði gefið honum. Hann hafði ysta
skarlatskápu rauða. Hann var gyrður Fótbít og voru að honum hjölt gullbúin
og meðalkaflinn gulli vafiður. Hann hafði gylltan hjálm á höfði og rauðan
skjöld á hlið og ádreginn riddari með gulli. Hann hafði glaðel í hendi sem
títt er í útlöndum. Og hvar sem þeir tóku gistingar þá gáðu konur engis
annars en horfa á Bolla og skart hans og þeirra félaga. Með slíkri kurteisi
ríður Bolli vestur í sveitir allt þar til er hann kom til Helgafells með
liði sínu. Varð Guðrún allfegin Bolla syni sínum. Dvaldist Bolli þar eigi
lengi áður hann reið inn í Sælingsdalstungu og hittir Snorra mág sinn og
Þórdísi konu sína. Varð þar mikill fagnafundur. Snorri bauð Bolla til sín
með svo marga menn sem hann vildi. Bolli þekkist það og er hann með Snorra
um veturinn og þeir menn sem norðan riðu með honum. Bolli varð frægur af
ferð þessi. Snorri lagði eigi minni stund nú á að veita Bolla með allri
blíðu en fyrr er hann var með honum.

78. kafli - Andlát Snorra goða
En er Bolli hafði verið einn vetur á Íslandi þá tók Snorri goði sótt. Sú
sótt fór ekki ótt. Snorri lá mjög lengi og er sóttin óx heimti Snorri til
sín frændur sína og nauðleytamenn.
Þá mælti hann til Bolla: "Það er vilji minn að þú takir hér við búi og
mannaforræði eftir dag minn. Ann eg þér eigi verr virðingar en mínum sonum.
Er sá og nú minn sonur eigi hér á landi er eg hygg að þeirra verði mestur
maður, er Halldór er."
Síðan andaðist Snorri. Hann hafði þá sjö vetur hins sjöunda tigar. Það var
einum vetri eftir fall Ólafs konungs hins helga. Svo sagði Ari prestur hinn
fróði.
Snorri var í Tungu grafinn. Bolli og Þórdís tóku við búi í Tungu sem Snorri
hafði mælt. Létu synir Snorra sér það vel líka. Varð Bolli mikilhæfur maður
og vinsæll.

Grace Hatton
Hawley, PA