Það er sagt einhverja nótt að meyna Herdísi dreymdi að kona kæmi að henni.
Sú var í vefjarskikkju og faldin höfuðdúki. Ekki sýndist henni konan
svipleg.
Hún tók til orða: "Seg þú það ömmu þinni að mér hugnar illa við hana því að
hún bröltir allar nætur á mér og fellir á mig dropa svo heita að eg brenn af
öll. En því segi eg þér til þessa að mér líkar til þín nokkuru betur en þó
svífur enn nokkuð kynlegt yfir þig. En þó mundi eg við þig semja ef mér
þætti eigi meiri bóta vant þar sem Guðrún er."
Síðan vaknaði Herdís og sagði Guðrúnu drauminn. Guðrúnu þótti góður
fyrirburðurinn. Um morguninn eftir lét Guðrún taka upp fjalar úr
kirkjugólfinu þar sem hún var vön að falla á knébeð. Hún lét grafa þar niður
í jörð. Þar fundust undir bein. Þau voru blá og illileg. Þar fannst og kinga
og seiðstafur mikill. Þóttust menn þá vita að þar mundi verið hafa völuleiði
nokkuð. Voru þau bein færð langt í brott þar sem síst var manna vegur.

77. kafli - Útkoma Bolla Bollasonar
Þá er fjórir vetur voru liðnir frá drukknun Þorkels Eyjólfssonar þá kom skip
í Eyjafjörð. Það átti Bolli Bollason. Voru þar á flestir norrænir hásetar.
Bolli hafði mikið fé út og marga dýrgripi er höfðingjar höfðu gefið honum.
Bolli var svo mikill skartsmaður er hann kom út úr för þessi að hann vildi
engi klæði bera nema skarlatsklæði og pellsklæði og öll vopn hafði hann
gullbúin. Hann var kallaður Bolli hinn prúði. Hann lýsti því fyrir
skipverjum sínum að hann ætlaði vestur til héraða sinna og fékk skip sitt og
varnað í hendur skipverjum sínum. Bolli ríður frá skipi við tólfta mann.
Þeir voru allir í skarlatsklæðum, fylgdarmenn Bolla, og riðu í gylltum
söðlum. Allir voru þeir listulegir menn en þó bar Bolli af.

Grace Hatton
Hawley, PA