Nú er að segja frá þrælum Arnkels að þeir gengu inn þá er þeir höfðu inn
borið heyið og fóru af skinnstökkum sínum. Þá vöknuðu fylgdarmenn Arnkels og
spurðu hvar hann var.
Þá var sem þrællinn vaknaði af svefni og svarar: "Það er satt," segir hann,
"hann mun berjast inn á Örlygsstöðum við Snorra goða."
Þá hljópu menn upp og klæddust og fóru sem skyndilegast inn á Örlygsstaði og
fundu Arnkel bónda sinn dauðan og var hann öllum mönnum harmdauði því að
hann hefir verið allra menna best að sér um alla hluti í fornum sið og manna
vitrastur, vel skapi farinn, hjartaprúður og hverjum manni djarfari,
einarður og allvel stilltur. Hafði hann og jafnan hinn hærra hlut í
málaferlum við hverja sem skipta var. Fékk hann af því öfundsamt sem nú kom
fram.
Tóku þeir nú lík Arnkels og bjuggu um og færðu til graftar. Arnkell var
lagður í haug við sæinn út við Vaðilshöfða og er það svo víður haugur sem
stakkgarður mikill.

38. kafli
Eftir víg Arnkels voru konur til erfðar og aðildar og var fyrir því eigi svo
mikill reki að ger um vígið sem von mundi þykja um svo göfgan mann. En þó
var sæst á vígið á þingi og urðu þær einar mannsektir að Þorleifur kimbi
skyldi vera utan þrjá vetur því að honum var kennt banasár Arnkels.
En með því að eftirmálið varð eigi svo sæmilegt sem líklegt þótti um svo
mikinn höfðingja sem Arnkell var þá færðu landsstjórnarmenn lög á því að
aldrei síðan skyldi kona vera vígsakaraðili né yngri karlmaður en sextán
vetra og hefir það haldist jafnan síðan.

39. kafli
Þorleifur kimbi tók sér fari um sumarið með kaupmönnum þeim er bjuggust í
Straumfirði og var hann í sveit með stýrimönnum.

Grace Hatton
Hawley, PA