Snorri spyr hvað hann vill. Hann svarar: "Nú er örninn gamli floginn á æslið
á Örlygsstaði."
Snorri stóð upp og bað menn klæðast. Og er þeir voru klæddir þá tóku þeir
vopn sín og fóru níu saman inn eftir ísnum til Álftafjarðar. Og er þeir komu
inn í fjarðarbotninn komu Þorbrandssynir til móts við þá, sex saman. Fóru
þeir síðan upp til Örlygsstaða. Og er þeir komu þar þá hafði þrællinn einn
heim farið með heyhlassið en þeir Arnkell voru þá að gera annað. Þá sáu þeir
Arnkell að vopnaðir menn fóru frá sæ neðan.
Ræddi Ófeigur um að ófriður mundir vera "og er sá einn til að vér förum
heim."
Arnkell svarar: "Hér kann eg gott ráð til því að hér skulu gera hvorir það
er betra þykir. Þið skuluð hlaupa heim og vekja upp fylgdarmenn mína og munu
þeir koma skjótt til móts við mig en hér er vígi gott í stakkgarðinum og mun
eg héðan verjast ef þetta eru ófriðarmenn því að mér þykir það betra en
renna. Mun eg eigi skjótt verða sóttur. Munu mínir menn koma skjótt til móts
við mig ef þið rekið drengilega erindið."
Og er Arnkell hafði þetta mælt hófu þrælarnir á rás. Varð Ófeigur skjótari.
Hann varð svo hræddur að hann gekk nálega af vitinu og hljóp í fjall upp og
þaðan í foss einn og týndist og heitir þar Ófeigsfoss. Annar þræll hljóp
heim á bæinn og er hann kom til hlöðunnar var þar fyrir félagi hans og bar
inn heyið. Hann kallar á þann þrælinn er hljóp að hann skyldi leggja inn
heyið með honum en það fannst á að þrælnum var verkið eigi leitt og fór hann
til með honum.
Nú er að segja frá Arnkatli að hann kenndi ferð þeirra Snorra goða. Þá reif
hann meiðinn undan sleðanum og hafði upp í garðinn með sér. Garðurinn var
hár utan en vaxinn mjög upp innan og var það gott vígi. Hey var í garðinum
og voru teknir á garðsetar.

Grace Hatton
Hawley, PA