Og er á leið daginn ræddi Þorsteinn við Halldór að þeir skyldu ganga allir
saman á tal, "eigum við erindi við þig."
Halldór kvað það vel fallið. Þorsteinn mælti við förunauta sína að ekki
þyrftu þeir að ganga með þeim en Beinir gekk með þeim ekki að síður því að
honum þótti mjög eftir því fara sem Halldór gat til. Þeir gengu mjög langt á
brott í túnið. Halldór hafði yfir sér samda skikkju og á nist löng sem þá
var títt. Halldór settist niður á völlinn en á sína hönd honum hvor þeirra
frænda og þeir settust nálega á skikkjuna en Beinir stóð yfir þeim og hafði
öxi mikla í hendi.
Þá mælti Þorsteinn: "Það er erindi mitt hingað að eg vil kaupa land að þér.
Legg eg þetta því nú til umræðu að nú er Þorkell frændi minn við. Þætti mér
okkur þetta vel hent því að mér er sagt að þú hafir ónógleg lausafé en land
dýrt undir. Mun eg gefa þér í móti þá staðfestu að sæmileg sé og þar í milli
sem við verðum á sáttir."
Halldór tók ekki svo fjarri í fyrstu og inntust þeir til um kaupakosti. Og
er þeim þótti hann ekki fjarri taka þá felldi Þorkell sig mjög við umræðuna
og vildi saman færa með þeim kaupið. Halldór dró þá heldur fyrir þeim en
þeir sóttu eftir því fastara og þar kom um síðir að þess firr var er þeir
gengu nær.
Þá mælti Þorkell: "Sérð þú eigi Þorsteinn frændi hversu þetta fer? Hann
hefir þetta mál dregið fyrir oss í allan dag en vér höfum setið hér að
hégóma hans og ginningum. Nú ef þér er hugur á landkaupi þá munum vér verða
að ganga nær."
Þorsteinn kvaðst þá vilja vita sinn hluta, bað nú Halldór úr skugga ganga
hvort hann vildi unna honum landkaupsins.
Halldór svarar: "Eg ætla að ekki þurfi að fara myrkt um það að þú munt
kauplaust heim fara í kveld."