Áttust þeir þar við um hríð. Hélt Þorleifur á um málið en Arnkell veik af
höndum. Þá boraði Arnkell hurðarokann og lagði niður meðan tálguöxina.
Þorleifur tók hana upp og reiddi skjótt yfir höfuð sér og hugði að setja í
höfuð Arnkatli. En er Arnkell heyrði hvininn hljóp hann undir höggið og hóf
Þorleif upp á bringu sér og kenndi þar aflsmunar því að Arnkell var rammur
að afli. Felldi hann Þorleif svo mikið fall að honum hélt við óvit en öxin
hraut úr hendi honum og fékk Arnkell hana tekið og setti í höfuð Þorleifi og
veitti honum banasár.
Sá orðrómur lagðist á að Snorri goði hefði þenna mann sendan til höfuðs
Arnkatli. Snorri lét þetta mál eigi til sín taka og lét hér ræða um hvern
það er vildi og liðu svo þau misseri að eigi varð til tíðinda.
37. kafli
Annað haust eftir að veturnóttum hafði Snorri goði haustboð mikið og bauð
til vinum sínum. Þar var öldrykkja og fast drukkið.
Þar var ölteiti mörg. Var þar talað um mannjöfnuð hver þar væri göfgastur
maður í sveit eða mestur höfðingi. Og urðu menn þar eigi á eitt sáttir sem
oftast er ef um mannjöfnuð er talað. Voru þeir flestir að Snorri goði þótti
göfgastur maður en sumir nefndu til Arnkel. Þeir voru enn sumir er nefndu
til Styr.
En er þeir töluðu þetta þá svarar þar til Þorleifur kimbi: "Hví þræta menn
um slíka hluti er allir menn mega sjá hversu er?"
"Hvað viltu til segja Þorleifur," sögðu þeir, "er þú deilir þetta mál svo
mjög brotum?"
"Miklu mestur þykir mér Arnkell," segir hann.
"Hvað finnur þú til þess?" segja þeir.
"Það er satt er," segir hann. "Eg kalla að þar sé sem einn maður er þeir eru
Snorri goði og Styr fyrir tengda sakir, en engir liggja heimamenn Arnkels
ógildir hjá garði hans þeir er Snorri hefir drepið, sem Haukur fylgdarmaður
Snorra liggur hér hjá garði hans er Arnkell hefir drepið."