Og er þrælarnir sáu fall Hauks tóku þeir á rás og hljópu heim á leið og elti
Arnkell þá allt um Öxnabrekkur. Hvarf þá Arnkell aftur og rak heim með sér
viðarhestana, tók af þeim viðinn en lét lausa hestana og festi reipin upp á
þá. Var þeim síðan vísað út með fjalli. Ganga þá hestarnir til þess er þeir
komu heim til Helgafells. Spurðust nú þessi tíðindi. Stóð allt kyrrt þessi
misseri.
En um vorið eftir bjó Snorri goði til vígsmálið Hauks til Þórsnessþings en
Arnkell bjó frumhlaupið til óhelgi Hauki. Og fjölmenntu mjög hvorirtveggju
til þingsins og gengu með miklu kappi að þessum málum. En þær urðu
málalyktir að Haukur varð óheilagur að frumhlaupinu og ónýttust mál fyrir
Snorra goða og riðu við það heim af þinginu. Voru þá dylgjur miklar með
mönnum um sumarið.

36. kafli
Þorleifur hét maður. Hann var austfirskur og hafði orðið sekur um konumál.
Hann kom til Helgafells um haustið og beiddi Snorra goða viðtöku en hann
veik honum af höndum og töluðu þeir mjög lengi áður hann fór á brott. Eftir
það fór Þorleifur inn á Bólstað og kom þar um kveldið og var þar aðra nótt.
Arnkell stóð upp snemma um morguninn og negldi saman útihurð sína. En er
Þorleifur reis upp gekk hann til Arnkels og beiddi hann viðtöku. Hann svarar
heldur seinlega og spyr ef hann hefir fundið Snorra goða.
"Fann eg hann," segir Þorleifur, "og vildi hann engan kost á gera að taka
við mér enda er mér lítið um," segir Þorleifur, "að veita þeim manni fylgd
er jafnan vill sinn hlut láta undir liggja við hvern mann sem um er að
eiga."
"Eigi kemur mér það í hug," segir Arnkell, "að Snorri kaupi sínu kaupi betur
þótt hann gefi þér mat til fylgdar."
"Hér vil eg á halda um viðtökuna Arnkell sem þú ert," segir Þorleifur.
"Eigi er eg vanur," segir Arnkell, "að taka við utanhéraðsmönnum."

Grace Hatton
Hawley, PA