En er þeir komu inn á hálsbrúnina þá ærðust yxnirnir og urðu þegar lausir og
hljópu þegar af hálsinum fram og stefndu út með hlíðinni fyrir ofan garð að
Úlfarsfelli og þar út til sævar og voru þá sprungnir báðir. En Þórólfur var
þá svo þungur að þeir fengu hvergi komið honum talsvert. Færðu þeir hann þá
á einn lítinn höfða er þar var hjá þeim og jörðuðu hann þar og heitir þar
síðan Bægifótshöfði.
Lét Arnkell síðan leggja garð um þveran höfðann fyrir ofan dysina svo hávan
að eigi komst yfir nema fugl fljúgandi og sér enn þess merki. Lá Þórólfur
þar kyrr alla stund meðan Arnkell lifði.
35. kafli
Snorri goði lét vinna Krákunesskóg allt að einu þó að Þórólfur bægifótur
hefði um vandað en það fannst á Arnkatli goða að honum þótti eigi að lögum
farið hafa heimildartakan á skóginum. Þótti honum Þórólfur hafa gert arfskot
í því er hann hafði fengið Snorra goða skóginn.
Það var eitt sumar er Snorri sendi þræla sína að vinna skóginn og hjuggu
þeir timbur mart og hlóðu saman og fóru heim eftir það. En er timbrið
þornaði lét Arnkell sem hann mundi heim bera timbrið en það varð þó eigi en
þó bað hann smalamann sinn verða varan við þá er Snorri léti sækja timbrið
og segja sér. En er þurr var viðurinn sendi Snorri þræla sína þrjá að sækja
viðinn. Hann fékk til Hauk, fylgdarmann sinn, að fylgja þrælunum til styrks
við þá. Fóru þeir síðan og bundu timbrið á tólf hesta, sneru síðan heim á
leið.
Smalamaður Arnkels varð var við ferð þeirra og segir Arnkatli. Hann tók vopn
sín og reið eftir þeim og gat farið þá út frá Svelgsá, milli og Hóla, og
þegar hann kemur eftir þeim hljóp Haukur af baki og lagði til Arnkels með
spjóti, kom það í skjöldinn og varð hann eigi sár. Þá hljóp Arnkell af baki
og lagði til Hauks með spjóti og kom það á hann miðjan og féll hann þar sem
nú heitir Hauksá.