Kærðu menn nú þetta vandkvæði mjög. Þótti mönnum Arnkell eiga að ráða bætur
á. Arnkell bauð þeim öllum til sín er það þótti vildara en vera annars
staðar. En hvar sem Arnkell var staddur varð aldrei þar mein að Þórólfi og
sveitungum hans. Svo voru allir menn hræddir við afturgöngur Þórólfs að
engir menn þorðu að fara ferða sinna, þó að erindi ættu, um veturinn.
En er af leið veturinn voraði vel. Og er þeli var úr jörðu sendi Arnkell
mann inn á Kársstaði eftir Þorbrandssonum og bað þá fara til með sér að færa
Þórólf brott úr Þórsárdal og leita annars legstaðar. Jafnskylt var öllum
mönnum í lögum þeirra að færa dauða menn til graftrar sem nú ef þeir eru
kvaddir.
En er Þorbrandssynir heyrðu þetta kváðu þeir sér enga nauðsyn til bera að
leysa vandkvæði Arnkels eða manna hans.
Þá svarar Þorbrandur karl: "Það er nauðsyn," segir hann, "að fara ferðir þær
allar er mönnum eru lögskuldir til og eruð þér nú þess beiddir er þér eigið
eigi að synja."
Þá mælti Þóroddur við sendimanninn: "Far þú og seg Arnkatli að eg mun fara
ferð þessa fyrir oss bræður og kem eg til Úlfarsfells og finnumst þar."
Nú fór sendimaðurinn og sagði Arnkatli. Bjó hann nú ferð sína og voru þeir
tólf saman. Höfðu þeir með sér eyki og graftól. Fóru þeir fyrst til
Úlfarsfells og fundu þar Þórodd Þorbrandsson og voru þeir þrír saman.
Þeir fóru upp yfir hálsinn og komu í Þórsárdal og til dysjar Þórólfs, brjóta
dysina og finna Þórólf þar ófúinn og var hann nú hinn illilegasti. Þeir tóku
hann upp úr gröfinni og lögðu hann í sleða og beittu fyrir tvo sterka yxn og
drógu hann upp á Úlfarsfellsháls og voru þá þrotnir yxnirnir og teknir aðrir
og drógu hann inn á hálsinn. Ætlaði Arnkell að færa hann inn á Vaðilshöfða
og jarða hann þar.