"Þú munt ráða ferðum þínum Bolli," segir konungur, "því að þér eruð um flest
einráðir Íslendingar. En þó mun eg því orði á lúka að mér þykir þú Bolli
hafa komið merkilegastur maður af Íslandi um mína daga."
Og er Bolli hafði fengið orlof af konungi þá býst hann til ferðar og gekk á
kugg einn er ætlaði suður til Danmerkur. Hann hafði og mikið fé með sér.
Fóru og nokkurir menn með honum af hans förunautum. Skildust þeir Ólafur
konungur með mikilli vináttu. Veitti konungur Bolla góðar gjafar að
skilnaði. Þorleikur var þá eftir með Ólafi konungi. En Bolli fór ferðar
sinnar þar til er hann kemur suður til Danmerkur. Hann er þar um veturinn í
Danmörku og fékk þar mikinn sóma af ríkum mönnum. Hann hélt sig og þar að
engu óríkmannlegar en þá er hann var í Noregi. Og er Bolli hafði verið einn
vetur í Danmörku þá byrjar hann ferð sína út í lönd og léttir eigi fyrr
ferðinni en hann kemur út í Miklagarð. Hann var litla hríð þar áður hann kom
sér í Væringjasetu. Höfum vér ekki heyrt frásagnir að neinn Norðmaður hafi
fyrr gengið á mála með Garðskonungi en Bolli Bollason. Var hann í Miklagarði
mjög marga vetur og þótti hinn hraustasti maður í öllum mannraunum og gekk
jafnan næst hinum fremstum. Þótti Væringjum mikils vert um Bolla meðan hann
var í Miklagarði.

74. kafli - Utanferð Þorkels
Nú er þar til máls að taka að Þorkell Eyjólfsson situr í búi sínu og í
höfðingsskap sínum. Gellir son þeirra Guðrúnar óx upp heima þar. Hann var
snemma drengilegur maður og vinsæll.
Það er sagt eitt sinn að Þorkell sagði Guðrúnu draum sinn.
"Það dreymdi mig," segir hann, "að eg þóttist eiga skegg svo mikið að tæki
um allan Breiðafjörð."
Þorkell bað hana ráða drauminn.
Guðrún spurði: "Hvað ætlar þú þenna draum þýða?"
"Auðsætt þykir mér það að þar mun standa ríki mitt um allan Breiðafjörð."

Grace Hatton
Hawley, PA