Eftir það reið Arnkell heim í Hvamm og kastaði sinni eign á fé það allt er
þar stóð saman og faðir hans hafði átt. Var Arnkell þar þrjár nætur og var
þessa stund tíðindalaust. Fór hann síðan heim.

34. kafli
Eftir dauða Þórólfs bægifóts þótti mörgum mönnum verra úti þegar er sólina
lægði. En er á leið sumarið urðu menn þess varir að Þórólfur lá eigi kyrr.
Máttu menn þá aldrei í friði úti vera þegar er sól settist. Það var og með
að yxn þeir er Þórólfur var ekinn á urðu tröllriða, og allt fé það er nær
kom dys Þórólfs ærðist og æpti til bana. Smalamaður í Hvammi kom svo oft
heim að Þórólfur hafði eltan hann.
Sá atburður varð um haustið í Hvammi að hvorki kom heim smalamaður né féið
og um morguninn var leita farið og fannst smalamaður dauður skammt frá dys
Þórólfs. Var hann allur kolblár og lamið í hvert bein. Var hann dysjaður hjá
Þórólfi en fénaður allur, sá er verið hafði í dalnum, fannst sumur dauður en
sumur hljóp á fjöll og fannst aldrei. En ef fuglar settust á dys Þórólfs
féllu þeir niður dauðir.
Svo gerðist mikill gangur að þessu að engi maður þorði að beita upp í
dalinn. Oft heyrðu menn úti dunur miklar um nætur í Hvammi. Urðu menn og
þess varir að oft var riðið skálanum. Og er vetur kom sýndist Þórólfur oft
heima á bænum og sótti mest að húsfreyju. Varð og mörgum manni að þessu mein
en henni sjálfri hélt við vitfirring. Svo lauk þessu að húsfreyja lést af
þessum sökum. Var hún og færð upp í Þórsárdal og var dysjuð hjá Þórólfi.
Eftir þetta stukku menn burt af bænum. Tók Þórólfur nú að ganga svo víða um
dalinn að hann eyddi alla bæi í dalnum. Svo var og mikill gangur að
afturgöngum hans að hann deyddi suma menn en sumir stukku undan. En allir
menn þeir er létust voru sénir í ferð með Þórólfi.

Grace Hatton
Hawley, PA