Bolli svarar: "Það hefi eg lengi haft í hug mér að ganga suður um sinnsakir.
Þykir maður við það fávís verða ef hann kannar ekki víðara en hér Ísland."
Og er Snorri sér það að Bolli hefir statt þetta fyrir sér að ekki mundi tjá
að letja þá býður Snorri honum að hafa fé svo mikið sem hann vildi til
ferðarinnar. Bolli játar því að hafa féið mikið "vil eg," segir hann, "engis
manns miskunnarmaður vera hvorki hér né utanlendis."
Síðan ríður Bolli suður til Borgarfjarðar og til Hvítár og kaupir skip það
hálft að þeim mönnum er það áttu. Eiga þeir bræður þá saman skipið. Ríður
Bolli síðan vestur heim. Þau Bolli og Þórdís áttu eina dóttur. Sú hét
Herdís. Þeirri mey bauð Guðrún til fósturs. Hún var þá veturgömul er hún fór
til Helgafells. Þórdís var og löngum þar. Var Guðrún og allvel til hennar.
73. kafli - Utanferð þeirra bræðra
Nú fóru þeir bræður báðir til skips. Bolli hafði mikið fé utan. Þeir bjuggu
nú skipið og er þeir voru albúnir létu þeir í haf. Þeim byrjaði ekki skjótt
og höfðu útivist langa, tóku um haustið Noreg og komu norður við Þrándheim.
Ólafur konungur var austur í landi og sat í Víkinni og hafði hann þar efnað
til vetursetu. Og er þeir bræður spurðu það að konungur mundi ekki koma
norður til Þrándheims það haust þá segir Þorleikur að hann vill leita austur
með landi og á fund Ólafs konungs.
Bolli svarar: "Lítið er mér um það að rekast milli kaupstaða á haustdegi.
Þykir mér það mikil nauð og ófrelsi. Vil eg hér sitja veturlangt í bænum. Er
mér sagt að konungur mun koma norður í vor en ef hann kæmi eigi þá mun eg
ekki letja að við förum á hans fund."
Bolli ræður þessu. Ryðja þeir nú skip sitt og taka sér bæjarsetu. Brátt
fannst það að Bolli mundi vera maður framgjarn og vildi vera fyrir öðrum
mönnum. Honum tókst og svo því að maðurinn var örlátur. Fékk hann brátt
mikla virðing í Noregi. Bolli hélt sveit um veturinn í Þrándheimi og var
auðkennt hvar sem hann gekk til skytninga að menn hans voru betur búnir að
klæðum og vopnum en annað bæjarfólk. Hann skaut og einn fyrir sveitunga sína
alla þá er þeir sátu í skytningum. Þar eftir fór annað örlæti hans og
stórmennska. Eru þeir bræður nú í bænum um veturinn.

Grace Hatton
Hawley, PA