"Það vil eg," sagði Þórólfur, "að við höfum upphaf að sættargerð okkarri og
vináttu að við heimtum Krákunesskóg að Snorra goða því að mér þykir það
verst er hann skal sitja yfir hlut okkrum en hann vill nú eigi lausan láta
skóginn fyrir mér og kallar að eg hafi gefið honum en það er lygð," segir
hann.
Arnkell svarar: "Eigi gerðir þú það til vináttu við mig er þú fékkst Snorra
skóginn og mun eg eigi gera það fyrir róg þitt að deila við Snorra um
skóginn. En veit eg að hann hefir eigi réttar heimildir á skóginum. En eigi
vil eg að þú hafir það fyrir illgirni þína að gleðjast af deilu okkarri."
"Það hygg eg," segir Þórólfur, "að meir komi þar til lítilmennska en þú
sparir að eg hendi gaman að deilu ykkarri."
"Haf þú það fyrir satt sem þú vilt þar um," segir Arnkell, "en eigi mun eg
svo búið deila um skóginn við Snorra."
Við þetta skildu þeir feðgar. Fór Þórólfur heim og unir stórilla sínum hlut
og þykist nú eigi sinni ár fyrir borð koma.
Þórólfur bægifótur kom heim um kveldið og mælti við engan mann. Hann settist
niður í öndvegi sitt og mataðist eigi um kveldið. Sat hann þar eftir er menn
fóru að sofa. En um morguninn, er menn stóðu upp, sat Þórólfur þar enn og
var dauður.
Þá sendi húsfreyja mann til Arnkels og bað segja honum andlát Þórólfs. Reið
þá Arnkell upp í Hvamm og nokkurir heimamenn hans. Og er þeir komu í Hvamm
varð Arnkell þess vís að faðir hans var dauður og sat í hásæti en fólk allt
var óttafullt því að öllum þótti óþokki á andláti hans. Gekk Arnkell nú inn
í eldaskálann og svo inn eftir setinu á bak Þórólfi. Hann bað hvern að
varast að ganga framan að honum meðan honum voru eigi nábjargir veittar. Tók
Arnkell þá í herðar Þórólfi og varð hann að kenn aflsmunar áður hann kæmi
honum undir. Síðan sveipaði hann klæðum að höfði Þórólfi og bjó um hann
eftir siðvenju. Eftir það lét hann brjóta vegginn á bak honum og draga hann
þar út. Síðan voru yxn fyrir sleða beittir. Var Þórólfur þar í lagður og óku
honum upp í Þórsárdal og var það eigi þrautarlaust áður hann kom í þann stað
sem hann skyldi vera. Dysjuðu þeir Þórólf þar rammlega.