Halldór svarar: "Þessu vil eg játta ef það er vilji bræðra minna að gjalda
fé fyrir víg Bolla, slíkt sem þeir menn dæma er til gerðar eru teknir. En
undan vil eg skilja sektir allar og svo goðorð mitt, svo staðfestu, slíkt
hið sama þær staðfestur er bræður mínir búa á. Vil eg og til skilja að þeir
eigi þær að frjálsu fyrir þessa málalykt, taka og sinn mann hvorir til
gerðar."
Snorri segir: "Vel og skörulega er þetta boðið. Munu þeir bræður þenna kost
taka ef þeir vilja að nokkuru hafa mín ráð."
Síðan reið Snorri heim og segir þeim bræðrum hvert orðið hafði hans erindi
og svo það að hann mundi við skiljast þeirra mál með öllu ef þeir vildu eigi
játa þessu. Bolli bað hann fyrir ráða "og vil eg Snorri að þér dæmið fyrir
vora hönd."
Þá sendir Snorri orð Halldóri að þá var ráðin sættin. Bað hann kjósa mann
til gerðar til móts við sig. Halldór kaus til gerðar fyrir sína hönd
Steinþór Þorláksson af Eyri. Sættarfundur skyldi vera að Dröngum á
Skógarströnd þá er fjórar vikur eru af sumri. Þorleikur Bollason reið til
Helgafells og var allt tíðindalaust um veturinn. Og er leið að þeirri stundu
er á kveðið var um fundinn þá kom Snorri goði með þeim Ólafssonum og voru
alls fimmtán saman. Jafnmargir komu þeir Steinþór til mótsins. Tóku þeir
Snorri og Steinþór tal og urðu ásáttir um mál þessi. Eftir það luku þeir
fésekt en eigi er á kveðið hér hversu mikið þeir gerðu. Frá því er sagt að
fé galst vel og sættir voru vel haldnar. Á Þórsnessþingi voru gjöld af hendi
innt. Halldór gaf Bolla sverð gott en Steinþór Ólafsson gaf Þorleiki skjöld.
Var það og góður gripur. Og var síðan slitið þinginu og þóttu hvorirtveggju
hafa vaxið af þessum málum.

72. kafli - Ráðin utanferð Bolla
Eftir það er þeir höfðu sæst, Bolli og Þorleikur og Ólafssynir, og Þorleikur
hafði verið einn vetur á Íslandi þá lýsti Bolli því að hann ætlaði utan.
Snorri latti þess og mælti: "Oss þykir mikið í hættu hversu þér tekst. En ef
þig fýsir fleira að ráða en nú ræður þú þá vil eg fá þér staðfestu og gera
þér bú og þar með fá þér í hendur mannaforræði og halda þér til virðingar í
öllu. Vænti eg að það sé auðvelt því að flestir menn leggja góðan hug til
þín."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.