Snorri kvað enn farið hafa sem fyrr að þeir höfðu orðið tafli seinni en
Arnkell "og munuð þér", sagði hann, "eigi þrífa í hendur honum eftir þessum
peningum með því að hann hefir áður tekið undir sig lausafé en löndin liggja
yður öllum jafnnær og munu þeir þau hafa sem handsterkari eru. En þess er þó
meiri von að Arnkell hafi hér af meira hlut sem af öðrum yðrum skiptum. Er
það og satt að segja að má yður það er yfir margan gengur því að Arnkell
situr nú yfir hvers manns hlut hér í héraði og mun það svo vera meðan hann
lifir hvort sem það er lengur eða skemur."
Þorleifur kimbi svarar: "Satt segir þú það Snorri. Má það og kalla vorkunn
að þú réttir eigi vorn hlut við Arnkel því að þú heldur engu máli til fulls
við hann því er þið eigist við með ykkur að skipta."
Eftir það fóru þeir Þorbrandssynir heim og líkaði þeim allþungt.
33. kafli
Snorri goði lét nú vinna Krákunesskóg og mikið að gera um skógarhöggið.
Þórólfi bægifót þótti spillast skógurinn. Reið Þórólfur þá út til Helgafells
og beiddi Snorra að fá sér aftur skóginn og kveðst hafa léð honum en eigi
gefið. Snorri kvað það skyldu skýrra vera þá er þeir bera um er við
handsalið voru, kvaðst og eigi skyldu skóginn láta nema þeir bæru af honum.
Þórólfur reið þá í brott og var í allillu skapi. Hann reið þá inn á Bólstað
að finna Arnkel son sinn. Arnkell fagnar vel föður sínum og spyr að erindum
hans.
Þórólfur svarar: "Það er erindi mitt hingað að eg sé missmíði á að fæð er
með okkur. Vildi eg að nú legðum við það niður og tækjum upp frændsemi okkra
því að það er óskaplegt að við séum ósáttir því að mér þætti sem við mundum
miklir verða hér í héraði við harðfengi þína en ráðagerðir mínar."
"Því betur þætti mér," segir Arnkell, "er fleira væri með okkur."