Arnkell var úti staddur. Hann sá hvar maður hljóp og hafði skjöld og þóttist
kenna skjöldinn. Kom honum í hug að Úlfar mundi eigi hafa skjöldinn látið
sjálfráður.
Kvaddi Arnkell þá menn til að fara eftir manninum "en með því," segir hann,
"að hér hafa komið fram ráð föður míns og hafi þessi maður veitt Úlfari
bana, þá skuluð þér þegar drepa hann hver sem hann er og látið hann eigi
koma mér í augsýn."
Þá gekk Arnkell upp til Úlfarsfells. Fundu þeir þar Úlfar dauðan. Þórólfur
bægifótur sá að Spá-Gils hljóp út með Úlfarsfelli og hafði skjöld. Þóttist
hann þá vita hversu farið hafði með þeim Úlfari.
Þá mælti hann við þrælinn er honum fylgdi: "Nú skaltu fara inn á Kársstaði
og segja Þorbrandssonum að þeir fari til Úlfarsfells og láti nú eigi ræna
sig leysingjaarfinum sem fyrr því að nú er Úlfar drepinn."
Eftir það reið Þórólfur heim og þóttist nú hafa vel sýslað. En þeir er eftir
Spá-Gilsi hljópu fengu tekið hann út við klif er upp ríður úr fjörunni.
Fengu þeir þá af honum sannar sögur. Og er hann hafði sagt allt sem farið
hafði tóku þeir hann af lífi og kösuðu hann þar við klifið en þeir tóku
gripina og færðu Arnkatli.
Þræll Þórólfs kom á Kársstaði og sagði Þorbrandssonum orðsending Þórólfs. Þá
fóru þeir út til Úlfarsfells og er þeir komu þar var Arnkell þar fyrir og
mart manna með honum. Þá veittu Þorbrandssynir tilkall um fé það er Úlfar
hafði átt en Arnkell leiddi fram vottasögu þeirra er við voru handsal þeirra
Úlfars og kvaðst það halda mundu því að hann kvað þar eigi ósáttir á hafa
gengið að lögum, bað þá eigi ákall veita um fé þetta því að hann kvaðst
halda mundu sem föðurarfi sínum.
Sáu Þorbrandssynir þá sinn kost að hverfa frá. Fóru þeir þá enn út til
Helgafells og sögðu Snorra goða hvar þá var komið og báðu hann liðveislu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.