Snorri svarar á þá leið: "Ærið hefir komið fyrir víg Bolla er Helgi var
Harðbeinsson fyrir goldinn. Eru helsti mikil vandræði manna áður orðin þó að
staðar nemi um síðir."
Bolli segir þá: "Hvað er nú Snorri? Ertu eigi jafnhvass í liðveislunni sem
þú lést fyrir litlu? Og eigi mundi Þorleikur þér enn þessa ætlan sagt hafa
ef hann hefði nokkuð við mig um ráðist. Og þar er þú telur Helga hafa komið
í hefnd fyrir Bolla þá er mönnum það kunnigt að fé kom fyrir víg Helga en
faðir minn er óbættur."
En er Snorri sá að hann fékk þeim eigi talið hughvarf þá býðst Snorri til að
leita um sættir með þeim Ólafssonum heldur en manndráp tækjust og því játta
þeir bræður.
Síðan reið Snorri í Hjarðarholt með nokkura menn. Halldór tók vel við honum
og bauð honum þar að vera. Snorri kvaðst heim mundu ríða um kveldið "en eg á
við þig skylt erindi."
Síðan taka þeir tal og lýsir Snorri yfir erindum sínum að hann kvaðst þess
orðinn var að þeir Bolli og Þorleikur undu eigi lengur að faðir þeirra væri
bótlaus af þeim Ólafssonum "en nú vildi eg leita um sættir og vita ef endir
yrði á ógiftu yðvarri frænda."
Halldór tók þessu ekki fjarri og svarar: "Harðla kunnigt er mér að Þorgils
Hölluson og Bollasynir ætluðu að veita mér árás eða bræðrum mínum áður en þú
snerir hefndinni fyrir þeim svo að þaðan af sýndist þeim að drepa Helga
Harðbeinsson. Hefir þú þér deilt góðan hlut af þessum málum hvað sem þú
hefir til lagt um hin fyrri skipti vor frænda."
Snorri mælti: "Miklu þykir mér skipta að gott verði mitt erindi og hér kæmi
því á leið er mér er mestur hugur á, að tækjust góðar sættir með yður
frændum því að mér er kunnigt skaplyndi þeirra manna er málum eiga að skipta
við yður að þeir munu það allt vel halda er þeir verða á sáttir."