Fóru Þorbrandssynir þá í brott og fyrst út til Helgafells og segja Snorra
goða og beiddu hann liðveislu en Snorri goði kvaðst eigi mundu þetta mál
leggja í þrætur við Arnkel með því að þeim hafði svo sleppt til tekist í
fyrstunni að þeir Arnkell höfðu fyrri komið höndum á féið. Þorbrandssynir
kváðu hann eigi mundu meira stjórna ef hann hirti eigi um slíkt.
Þetta haust eftir hafði Arnkell inni haustboð mikið en það var vandi hans að
bjóða Úlfari vin sínum til allra boða og leiða hann jafnan með gjöfum út.
Þann dag er menn skyldu frá boðinu fara af Bólstað reið Þórólfur bægifótur
heiman. Hann fór að finna Spá-Gils vin sinn, hann bjó í Þórsárdal á
Spá-Gilsstöðum, og bað hann ríða með sér inn á Úlfarsfellsháls. Þræll
Þórólfs fór með honum.
Og er þeir komu inn á hálsinn þá mælti Þórólfur: "Þar mun Úlfar fara frá
boðinu og meiri von að hann hafi gjafir sæmilegar með að fara. Nú vildi eg
Spá-Gils," segir hann, "að þú færir mót honum og sætir fyrir honum undir
garðinum að Úlfarsfelli og vil eg að þú drepir hann. En þar til vil eg gefa
þér þrjár merkur silfurs og eg skal bótum upp halda fyrir vígið. En þá er þú
hefir drepið Úlfar skaltu taka af honum gripi þá er hann hefir þegið af
Arnkatli. Þú skalt hlaupa út með Úlfarsfelli til Krákuness. En ef nokkurir
menn fara eftir þér, lát þá skóginn hlífa þér. Far síðan á minn fund og svo
skal eg til sjá að þig skal eigi saka."
En með því að Spá-Gils var ómegðarmaður og mjög féþurfi þá tók hann við
flugu þessi og fór utan undir túngarðinn að Úlfarsfelli. Sá hann þá að Úlfar
gekk neðan frá Bólstað og hafði skjöld góðan er Arnkell hafði gefið honum og
sverð búið. Og er þeir fundust beiddist Spá-Gils að sjá sverðið. Hann hældi
Úlfari mjög og kvað hann vera göfgan mann er hann þótti þess verður að
þiggja hinar sæmilegustu gjafir af höfðingjum. Úlfar vatt við skegginu og
seldi honum sverðið og skjöldinn. Gils brá þegar sverðinu og lagði í gegnum
Úlfar. Eftir það hljóp hann út með Úlfarsfelli til Krákuness.