Síðan ríða þeir báðir bræður vestur til Helgafells. Þorkell tekur við þeim
með allri blíðu og þau Guðrún bæði og buðu Þorleiki þar að vera um veturinn
og það þiggur hann. Þorleikur dvelst að Helgafelli um hríð, ríður síðan til
Hvítár og lætur setja upp skipið en flytja vestur varnað sinn. Þorleiki
hafði gott orðið til fjár og virðingar því að hann hafði gerst handgenginn
hinum tignasta manni, Ólafi konungi. Var hann nú að Helgafelli um veturinn
en Bolli í Tungu.
71. kafli - Viðurtal þeirra bræðra
Annan vetur eftir útkomu Þorleiks finnast þeir bræður jafnan og höfðu tal
með sér og hvorki hentu þeir gaman að leikum né annarri skemmtan. Og eitt
sinn er Þorleikur var í Tungu þá töluðu þeir bræður svo að dægrum skipti.
Snorri þóttist þá vita að þeir mundu stórt nakkvað ráða. Þá gekk Snorri á
tal þeirra bræðra. Þeir fögnuðu honum vel og létu þegar falla niður talið.
Hann tók vel kveðju þeirra.
Síðan mælti Snorri: "Hvað hafið þið í ráðagerðum er þið gáið hvorki svefns
né matar?"
Bolli svarar: "Þetta eru ekki ráðagerðir því að það tal er með litlum
merkjum er vér eigum að tala."
Og er Snorri fann að þeir vildu leyna hann því öllu er þeim var í skapi en
hann grunaði þó að þeir mundu um það mest tala er stór vandræði mundu af
gerast ef fram gengi. Snorri mælti til þeirra: "Hitt grunar mig nú sem það
muni hvorki hégómi né gamanmál er þið munuð lengstum um tala og virði eg
ykkur til vorkunnar þótt svo sé og gerið svo vel og segið mér og leynið mig
eigi. Munum vér eigi allir verr kunna um ráða þetta mál því að eg mun hvergi
í móti standa að það gangi fram er ykkar sómi vaxi við."
Þorleiki þótti Snorri vel undir taka. Sagði hann í fám orðum ætlan þeirra
bræðra að þeir ætla að fara að þeim Ólafssonum og þeir skyldu sæta
afarkostum, segja sig þá ekki til skorta að hafa jafnan hlut af þeim
Ólafssonum er Þorleikur var handgenginn Ólafi konungi en Bolli kominn í
mægðir við slíkan höfðingja sem Snorri er.