Og er mál koma í dóm kvaddi Arnkell sér bjargkviðar og færði það til varna
að þrælarnir voru teknir með kveiktum eldi til bæjarbrennu.
Þá færði Snorri það fram að þrælarnir voru óhelgir á þeim vettvangi "en það
að þér færðuð þá inn í Vaðilshöfða og drápuð þá þar, það hygg eg að þeir
væru þar eigi óhelgir."
Hélt þá Snorri fram málinu og eyddi bjargkviðnum Arnkels. Eftir það áttu
menn hlut í að sætta þá og var sættum á komið. Skyldu þeir bræður gera um
málið, Styr og Vermundur. Þeir dæmdu fyrir þrælana tólf aura fyrir hvern,
gjaldist féið þegar á þinginu. Og er féið var goldið fékk Snorri Þórólfi
sjóðinn.
Hann tók við og mælti: "Eigi ætlaði eg til þess þá er eg fékk þér land mitt
að þú mundir þessu svo lítilmannlega fylgja og það veit eg að eigi mundi
Arnkell þessa hafa varnað mér að eg hefði slíkar bætur fyrir þræla mína ef
eg hefði undir hann lagið."
Snorri svarar: "Það kalla eg að þú sért skammlaus af þessu en eigi vil eg
veðsetja virðing mína til móts við illgirni þína og ranglæti."
Þórólfur svarar: "Það er og mest von að eg sæki þig eigi oftar að málum og
sofi yður þó eigi öll vá héraðsmönnum."
Eftir þetta fóru menn af þinginu og undu þeir Arnkell og Snorri illa við
þessar málalyktir en Þórólfur þó verst.

32. kafli
Svo er sagt að það gerðist nú til tíðinda að Örlygur á Örlygsstöðum tók
sótt. Og er að honum tók að líða sat Úlfar bróðir hans yfir honum. Hann
andaðist af þessi sótt.
En er Örlygur var látinn sendi Úlfar þegar eftir Arnkatli. Fór Arnkell þegar
á Örlygsstaði og tóku þeir Úlfar fé allt undir sig það er þar stóð saman. En
er Þorbrandssynir spurðu andlát Örlygs fóru þeir á Örlygsstaði og veittu
tilkall um fé það er þar stóð saman og kalla sína eign það er leysingi
þeirra hafði átt en Úlfar kvaðst arf eiga eftir bróður sinn að taka. Þeir
spurðu hvern hlut Arnkell vildi að eiga. Arnkell kvað Úlfar óræntan skyldu
fyrir hverjum manni meðan félag þeirra væri ef hann mætti ráða.
Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.