Nú er að segja frá Bolla Bollasyni. Þá er hann var átján vetra gamall um
vorið ræddi hann við Þorkel mág sinn og þau móður sína að hann vill að þau
leysi föðurarf hans. Guðrún spyr hvað hann ætlaðist fyrir er hann kallaði
til fjár í hendur þeim.
Bolli svarar: "Það er vilji minn að konu sé beðið til handa mér. Vildi eg
Þorkell mágur," segir Bolli, "að þú værir mér þar um flutningsmaður að það
gengi fram."
Þorkell spurði hverrar konu hann vildi biðja.
Bolli svarar: "Kona heitir Þórdís. Hún er dóttir Snorra goða. Hún er svo
kvenna að mér er mest um að eiga og ekki mun eg kvongast í bráð ef eg nái
eigi þessu ráði. Þykir mér og mikið undir að þetta gangi fram."
Þorkell svarar: "Heimult er þér mágur að eg gangi með máli þessu ef þér
þykir það máli skipta. Vænti eg að þetta mál verði auðsótt við Snorra því að
hann mun sjá kunna að honum er vel boðið þar er þú ert."
Guðrún mælti: "Það er skjótt að segja Þorkell að eg vil til þess láta engan
hlut spara að Bolli fái þann ráðakost sem honum líkar. Er það bæði að eg ann
honum mest enda hefir hann öruggastur verið í því minna barna að gera að
mínum vilja."
Þorkell lést það ætla fyrir sér að leysa Bolla vel af hendi: "Er það fyrir
margs sakir maklegt því að eg vænti þess að gott verði mannkaup í Bolla."
Litlu síðar fara þeir Þorkell og Bolli og voru saman mjög margir menn, fara
þar til er þeir koma í Tungu. Snorri tók vel við þeim og blíðlega. Eru þar
hinar mestu ölværðir af Snorra hendi. Þórdís Snorradóttir var heima með
föður sínum. Hún var væn kona og merkileg. Og er þeir höfðu fár nætur verið
í Tungu þá ber Þorkell upp bónorðsmálin og mælir til mægðar við Snorra fyrir
hönd Bolla en til samfara við Þórdísi dóttur hans.