En er Arnkell fann Úlfar segir hann honum hversu Þórólfur hefir svarað. Það
fannst á Úlfari að honum þótti sem Arnkell hefði lítt fylgt málinu og kvað
hann ráða slíku við föður sinn ef hann vildi. Arnkell galt Úlfari fyrir
heyið slíkt verð sem honum líkaði. Og er þeir feðgar fundust í annað sinn
heimti Arnkell enn heyverð að föður sínum en Þórólfur lét eigi batna um
svörin og skildu þeir þá reiðir. Um haustið eftir lét Arnkell reka af fjalli
yxn sjö er Þórólfur faðir hans átti og lét drepa alla í bú sitt. Þetta
líkaði Þórólfi stórilla og heimti verð af Arnkatli en Arnkell kvað þá skyldu
koma fyrir heyið Úlfars. Þá líkaði Þórólfi miklu verr en áður og kallast
þetta af Úlfari hlotið hafa, kvað hann sig skyldu fyrir finna.
31. kafli
Þenna vetur um jól hafði Þórólfur drykkju mikla og veitti kappsamlega þrælum
sínum. En er þeir voru drukknir eggjar hann þá að fara inn til Úlfarsfells
og brenna Úlfar inni og hét að gefa þeim þar til frelsi. Þrælarnir sögðust
þetta mundu vinna til frelsis sér ef hann efndi orð sín. Síðan fóru þeir sex
saman inn til Úlfarsfells. Tóku þeir viðköst og drógu að bænum og slógu eldi
í.
Í þenna tíma sátu þeir Arnkell við drykkju á Bólstað. Og er þeir gengu til
svefns sáu þeir eld til Úlfarsfells, fóru þá þegar til og tóku þrælana en
slökktu eldinn. Voru þá enn lítt brennd húsin.
Um morguninn eftir lét Arnkell flytja þrælana inn í Vaðilshöfða og voru þeir
þar hengdir allir. Eftir það handsalaði Úlfar Arnkatli fé sitt allt og
gerðist hann þá varnaðarmaður Úlfars.
Þetta handsal líkaði illa Þorbrandssonum því að þeir þóttust eiga allt fé
eftir Úlfar, leysingja sinn, og tókst af þessu fæð mikil með þeim Arnkatli
og Þorbrandssonum og máttu þeir þaðan af eigi leika saman eiga. En áður
höfðu þeir leikist við og var Arnkell þó sterkastur að leikum. En sá maður
tók best í móti honum og var annar sterkastur er hét Freysteinn bófi og var
fóstri Þorbrands og kenningarson því að það var flestra manna sögn að hann
væri hans son en ambátt var móðir hans. Hann var dregilegur maður og mikill
fyrir sér.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.