70. kafli - Utanferð Þorkels
Þorkell Eyjólfsson gerðist höfðingi mikill. Hélt hann sér mjög til vinsælda
og virðingar. Hann var maður héraðríkur og málamaður mikill. Þingdeilda hans
er hér þó ekki getið. Þorkell var ríkastur maður í Breiðafirði meðan hann
lifði þegar er Snorra leið. Þorkell sat vel bæ sinn. Hann lét gera öll hús
að Helgafelli stór og rammleg. Hann markaði og grundvöll til kirkju og lýsti
því að hann ætlaði sér að sækja kirkjuviðinn. Þau Þorkell og Guðrún áttu
son. Sá er nefndur Gellir. Hann var snemma hinn efnilegasti. Bolli Bollason
var ýmist í Tungu eða að Helgafelli. Var Snorra til hans allvel. Þorleikur
bróðir hans var að Helgafelli. Voru þeir bræður miklir menn og hinir
knálegstu og hafði Bolli allt fyrir. Vel var Þorkatli til stjúpbarna sinna.
Guðrún unni Bolla mest allra barna sinna. Bolli var nú sextán vetra en
Þorleikur tuttugu.
Þá ræddi Þorleikur við Þorkel stjúpföður sinn og móður sína að hann vildi
utan fara, "leiðist mér að sitja heima sem konum. Vildi eg að mér væru
fengin fararefni."
Þorkell svarar: "Ekki þykist eg verið hafa mótgerðasamur ykkur bræðrum síðan
er tengdir vorar tókust. Þykir mér þetta hin mesta vorkunn að þig fýsi að
kanna siðu annarra manna því að eg vænti að þú þykir vaskur maður hvar sem
þú kemur með dugandi mönnum."
Þorleikur kvaðst ekki mundu hafa mikið fé "því að ósýnt er hversu mér gætist
til. Er eg ungur og í mörgu óráðinn."
Þorkell bað hann hafa svo sem hann vildi. Síðan kaupir Þorkell í skipi til
handa Þorleiki er uppi stóð í Dögurðarnesi. Fylgir Þorkell honum til skips
og bjó hann að öllu vel heiman. Fór Þorleikur utan um sumarið. Skip það
kemur til Noregs. Var þá lands höfðingi Ólafur konungur hinn helgi.
Þorleikur fer þegar á fund Ólafs konungs. Hann tók vel við honum og
kannaðist við kynferði hans og bauð honum til sín. Þorleikur þekktist það.
Er hann með konungi um veturinn og gerðist hirðmaður hans. Virti konungur
hann vel. Þótti Þorleikur hinn vaskasti maður og var hann með Ólafi konungi
svo að vetrum skipti.