Snorri mælti: "Miklu er þér meiri vandi á að gera eftir vorum vilja. Er þér
og þetta sjálfum höfuðnauðsyn því að þú færð aldrei slíkrar konu sem Guðrún
er þótt þú leitir víða."
Og við umtölur Snorra og það með að hann sá að hann mælti satt þá sefaðist
Þorkell en Gunnari var í brott fylgt um kveldið.
Veisla fór þar vel fram og skörulega. Og er boði var lokið búast menn í
brott. Þorkell gaf Snorra allfémiklar gjafir og svo öllum virðingamönnum.
Snorri bauð heim Bolla Bollasyni og bað hann vera með sér öllum þeim stundum
er honum þætti það betra. Bolli þiggur það og ríður heim í Tungu. Þorkell
settist nú að Helgafelli og tekur þar við búsumsýslu. Það mátti brátt sjá að
honum var það eigi verr hent en kaupferðir. Hann lét þegar um haustið taka
ofan skála og varð upp ger að vetri og var hann mikill og risulegur. Ástir
takast miklar með þeim Þorkatli og Guðrúnu. Líður fram veturinn.
Um vorið eftir spyr Guðrún hvað hann vilji sjá fyrir Gunnari Þiðrandabana.
Þorkell kvað hana mundu fyrir því ráða: "Hefir þú tekið það svo fast að þér
mun ekki að getast nema hann sé sæmilega af höndum leystur."
Guðrún kvað hann rétt geta "vil eg," segir hún, "að þú gefir honum skipið og
þar með þá hluti sem hann má eigi missa að hafa."
Þorkell svarar og brosti við: "Eigi er þér lítið í hug um margt Guðrún,"
segir hann, "og er þér eigi hent að eiga vesalmenni. Er það og ekki við þitt
æði. Skal þetta gera eftir þínum vilja."
Fer þetta fram. Gunnar tók við gjöfinni allþakksamlega: "Mun eg aldrei svo
langhendur verða að eg fái yður launað þann sóma allan sem þið veitið mér."
Fór Gunnar utan og kom við Noreg. Eftir það fór hann til búa sinna. Gunnar
var stórauðigur og hið mesta mikilmenni og góður drengur.