Það sama sumar fæddi Þuríður að Fróðá sveinbarn og var nefndur Kjartan. Óx
hann upp heima að Fróðá og var snemma mikill og efnilegur.
En er Björn kom um haf fór hann suður til Danmarkar og þaðan suður til
Jómsborgar. Þá var Pálna-Tóki fyrir Jómsvíkingum. Björn gekk þar í lög
þeirra og var þar kappi kallaður. Hann var þá í Jómsborg er Styrbjörn hinn
sterki vann hana. Björn fór og til Svíþjóðar er Jómsvíkingar veitu
Styrbirni. Hann var og í orustunni á Fýrisvöllum þá er Styrbjörn féll og
komst þaðan á skóg með öðrum Jómsvíkingum. Og meðan Pálna-Tóki lifði var
Björn með honum og þótti hinn besti drengur og hinn hraustasti í öllum
mannraunum.
30. kafli
Nú skal segja frá Þórólfi bægifót. Hann tók nú að eldast fast og gerðist
illur og æfur við ellina og mjög ójafnaðarfullur. Lagðist og mjög ómjúkt á
með þeim Arnkatli feðgum.
Það var einn dag að Þórólfur reið inn til Úlfarsfells að finna Úlfar bónda.
Hann var forverksmaður góður og tekinn til þess að honum hirðist skjótar hey
en öðrum mönnum. Hann var og svo fésæll að fé hans dó aldrei af megri eða
drephríðum.
En er þeir Þórólfur fundust spurði Þórólfur hvert ráð Úlfar gæfi honum
hversu hann skyldi haga verksháttum sínum eða hversu honum segði hugur um
sumar hversu þerrisamt vera mundi.
Úlfar svarar: "Eigi kann eg þér annað ráð að kenna en sjálfum mér. Eg mun
láta bera út ljá í dag og slá undir sem mest má þessa viku alla því að eg
hygg að hún muni verða regnsöm en eg get að eftir það mun verða gott til
þerra hinn næsta hálfan mánuð."
Fór þetta svo sem hann sagði því að það fannst oft á að hann kunni gerr
veður að sjá en aðrir menn.
Síðan fór Þórólfur heim. Hann hafði með sér mart verkmanna. Lét hann nú og
þegar taka til engiverka. Veður fór þannig sem Úlfar hafði sagt.