Snorri kvaðst einsætt þykja að hnekkja Þorkatli eigi frá. Eftir það lét
Snorri kalla þangað sonu Guðrúnar, hefir þá uppi við þá málið og tjár hversu
mikill styrkur þeim mætti verða að Þorkatli fyrir sakir fjárafla hans og
forsjá og taldi þar um mjúklega.
Þá svarar Bolli: "Móðir mín mun þetta glöggvast sjá kunna. Vil eg hér um
hennar vilja samþykkja. En víst þykir oss ráðlegt að virða það mikils er þér
flytjið þetta mál Snorri því að þú hefir marga hluti stórvel gert til vor."
Þá mælti Guðrún: "Mjög munum vér hlíta forsjá Snorra um þetta mál því að oss
hafa þín ráð heil verið."
Snorri fýsti í hverju orði og réðst það af að ráðahagur skyldi takast með
þeim Guðrúnu og Þorkatli. Bauð Snorri að hafa boð inni. Þorkatli líkaði það
vel "því að mig skortir eigi föng til að leggja fram svo sem yður líkar."
Þá mælti Guðrún: "Það er vilji minn að boð þetta sé hér að Helgafelli. Vex
mér ekki það fyrir augum að hafa hér kostnað fyrir. Mun eg hvorki til þess
krefja Þorkel né aðra að leggja starf á þetta."
"Oft sýnir þú það Guðrún," segir Snorri, "að þú ert hinn mesti
kvenskörungur."
Verður nú það af ráðið að brullaup skal vera að Helgafelli að sex vikum
sumars. Fara þeir Snorri og Þorkell við þetta á brott. Fór Snorri heim en
Þorkell til skips. Er hann ýmist um sumarið í Tungu eða við skip. Líður til
boðsins. Guðrún hefir mikinn viðurbúnað og tilöflun. Snorri goði sótti þessa
veislu með Þorkatli og höfðu þeir nær sex tigu manna og var það lið mjög
valið því að flestir allir menn voru í litklæðum. Guðrún hafði nær hundrað
fyrirboðsmanna. Þeir bræður, Bolli og Þorleikur, gengu í mót þeim Snorra og
með þeim fyrirboðsmenn. Er Snorra allvel fagnað og hans föruneyti. Er nú
tekið við hestum þeirra og klæðum. Var þeim fylgt í stofu. Skipuðu þeir
Þorkell og Snorri bekk annan, þann er æðri var, en boðsmenn Guðrúnar hinn
óæðra bekk.