Þetta var litlu eftir víg Þorbjarnar digra. Þann vetur var að Helgafelli
Þuríður, systir Snorra goða, er Þorbjörn digri hafði átt.
Litlu eftir það er Þóroddur kom út hafði hann uppi orð sín og bað Snorra
goða að hann gifti sér Þuríði systur sína. En með því að hann var auðigur að
fé og Snorri vissi góð skil á honum og hann sá að hún þurfti mjög forvistu,
við þetta allt saman sýndist Snorra að gifta honum konuna og veitti hann
brúðkaup þeirra um veturinn þar að Helgafelli. En um vorið eftir tók
Þóroddur við búi að Fróðá og gerðist hann góður bóndi og skilríkur.
En þegar Þuríður kom til Fróðár vandi Björn Ásbrandsson þangað komur sínar
og var það alþýðumál að með þeim Þuríði væru fíflingar. Tók Þóroddur þá að
vanda um komur hans og hafði eigi að sök.
Þá bjó Þórir viðleggur að Arnarhvoli. Voru synir hans þá vaxnir, Örn og
Valur, og voru hinir efnilegustu menn. Þeir lögðu Þóroddi til ámælis að hann
þoldi Birni slíka skömm sem hann veitti honum og buðust þeir til fylgdar með
Þóroddi ef hann vildi ráða bætur á komum Bjarnar.
Það var eitt sinn að Björn kom til Fróðár að hann sat á tali við Þuríði. En
Þóroddur var jafnan vanur inni að sitja þá er Björn var þar en nú sést hann
hvergi.
Þuríður mælti: "Hugsa þú svo um ferðir þínar Björn," sagði hún, "að eg hygg
Þóroddur ætli nú af að ráða hingaðkomur þínar og get eg að þeir hafi farið á
veg fyrir þig og mun hann ætla að þér skulið eigi jafnliða finnast."
Þá kvað Björn vísu þessa:
Guls mundum við vilja
viðar og blás í miðli,
grand fæ eg af stoð stundum
strengs, þenna dag lengstan,
alls í aftan, þella,
eg tegumk sjálfr að drekka
oft horfinnar erfi,
armlinns, gleði minnar.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.