Eftir þetta skildi með þeim. Berserkirnir gengu heim um kveldið og voru
móðir mjög sem háttur er þeirra manna sem eigi eru einhama að þeir verða
máttlausir mjög er af þeim gengur berserksgangurinn.
Styr gekk þá í mót þeim og þakkaði þeim verk og bað þá fara í bað og hvíla
sig eftir það. Þeir gerðu svo. Og er þeir komu í baðið lét Styr byrgja
baðstofuna og bera grjót á hlemminn er var yfir forstofunni en hann lét
breiða niður nautshúð hráblauta hjá uppganginum. Síðan lét hann gefa utan á
baðið í glugg þann er yfir var ofninum. Var þá baðið svo heitt að
berserkirnir þoldu eigi í baðinu og hljópu á hurðirnar. Fékk Halli brotið
hlemminn og komst upp og féll á húðinni. Veitti Styr honum á banasár. En er
Leiknir vildi hlaupa upp úr dyrunum lagði Styr í gegnum hann og féll hann
inn í baðstofuna og lést þar. Síða lét Styr veita umbúnað líkum þeirra. Voru
þeir færðir út í hraunið og kasaðir í dal þeim er þar er í hrauninu er svo
djúpur að engan hlut sér úr nema himin yfir sig. Það er við sjálfa götuna.
Yfir grefti berserkjanna kvað Styr vísu:
Sýndist mér sem myndi
móteflandar spjóta
Ála ekki dælir
Él-herðöndum verða.
Uggi eg eigi seggja
ofrgang of mig strangan.
Nú hefr bilgrönduðr brandi
berserkjum stað merktan.
En er Snorri goði spyr þetta reið hann út undir Hraun og sátu þeir Snorri og
Styr enn allan dag. En af tali þeirra kom það upp að Styr fastnaði Snorra
goða Ásdísi dóttur sína og tókust þessi ráð um haustið eftir og var það mál
manna að hvortveggja þótti vaxa af þessum tengdum. Var Snorri goði
ráðagerðarmaður meiri og vitrari en Styr atgöngumeiri. Báðir voru þeir
frændmargir og fjölmennir innan héraðs.